„Það er full ástæða til að hafa áhyggjur, þarna er um að ræða stofnun sem er slík lykilstofnun í íslensku samfélagi,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í Kastljósi í kvöld, spurð um ástandið á Reykjalundi þar sem hatrammar deilur hafa staðið frá því að forstjóra Reykjalundar var sagt upp í lok september.
Embætti landlæknis, heilbrigðisráðherra og fulltrúar Sjúkratrygginga Íslands funduðu um stöðuna í dag og hyggst landlæknisembættið gera úttekt á Reykjalundi á næstu dögum. Svandís fagnar því og segir úttektina vera í samræmi við þau verkefni sem heyra undir embætti landlæknis. Hún segir stöðuna á Reykjalundi alvarlega, fyrst og fremst þar sem óánægja ríki enn meðal starfsfólks.
Alls hafa tíu læknar af tólf sagt upp störfum á Reykjalundi frá því í sumar. Þá hefur rúmlega helmingur starfsfólks lýsti yfir vantrausti á stjórn SÍBS, eiganda Reykjalundar.
Svandís segir það sérstaka stöðu að vera æðsti yfirmaður heilbrigðismála þegar um er að ræða einkaaðila sem veitir heilbrigðisþjónustu. Hún segir alvarleikann vera orðinn það mikinn að hennar stofnanir þurfi að stíga inn í og leita svara.
„Þarna er mikil þekking og djúp reynsla þannig það er til mikils að vinna að koma starfseminni aftur á réttan kjöl,“ sagði Svandís. Hún sagðist þó þann undirtón ríkjandi þessa stundina að samhljómur sé að finna lausn á málefnum Reykjalundar.
„Það sem mér finnst vera að gerast núna er að allir átta sig á því að Reykjalundur og starfsemin sem þar fer fram er stærri, merkilegri og mikilvægari heldur en hver og einn aðili að deilum eða átökum í þessu máli,“ sagði Svandís.
„Ef stofnunin á í vandræðum hefur það áhrif á heilbrigðisþjónustuna alla. Við megum engan tíma missa. Það er mjög mikið í húfi,“ bætti hún við.