Heilsugæslustöðvum á Akureyri fjölgi í tvær

Í dag er Heilsugæslan á Akureyri rekin í gömlu húsnæði …
Í dag er Heilsugæslan á Akureyri rekin í gömlu húsnæði í Hafnarstræti sem þykir ófullnægjandi og stenst ekki nútímakröfur varðandi aðgengi og aðbúnað starfsfólks eða notenda heilsugæslunnar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að við endurnýjun húsnæðis fyrir heilsugæsluþjónustu á Akureyri verði gert ráð fyrir tveimur heilsugæslustöðvum í bænum. Greint er frá þessu í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Miðað er við að auglýst verði eftir húsnæði fyrir stöðvarnar í byrjun  næsta árs.

Er ákvörðun heilbrigðisráðherra í samræmi við vilja stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og tillögu ráðgjafafyrirtækis, sem vann skýrslu um húsnæði heilsugæslunnar á Akureyri fyrir stofnunina í lok síðasta árs.

Í dag er Heilsugæslan á Akureyri rekin í gömlu húsnæði í Hafnarstræti sem þykir ófullnægjandi og stenst ekki nútímakröfur varðandi aðgengi og aðbúnað starfsfólks eða notenda heilsugæslunnar, sem eru í dag skráðir 20.600 talsins. Eru það umtalsvert fleiri einstaklingar en að jafnaði eru skráðir við heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu.

„Það er löngu tímabært að færa heilsugæsluþjónustuna á Akureyri í fullnægjandi húsnæði. Stjórnvöld leggja áherslu á að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu þar sem aðgengi er gott og þjónustan þverfagleg. Aðlaðandi starfsumhverfi sem mætir vel þörfum starfsfólks og notenda skiptir máli í því samhengi,“ er haft eftir Svandísi Svavarsdóttur í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert