Íhugar að loka Lambhaga

Hafberg Þórisson, aðaleigandi gróðrarstöðvarinnar Lambhaga, er ósáttur við Orkuveitu Reykjavíkur.
Hafberg Þórisson, aðaleigandi gróðrarstöðvarinnar Lambhaga, er ósáttur við Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Hafberg Þórisson, aðaleigandi gróðrarstöðvarinnar Lambhaga í Úlfarsárdal í Reykjavík, segir framtíðarstöðu fyrirtækisins í höfuðborginni ekki glæsilega. Ástæðan er gríðarleg hækkun á verði hitaveituvatns frá Orkuveitu Reykjavíkur sem fyrirhuguð er um áramót. Þetta kemur fram í forsíðufrétt Bændablaðsins sem kemur út í dag.

Frá Lambhaga.
Frá Lambhaga. mbl.is/Árni Sæberg

Þar er haft eftir Hafberg að hækka eigi verð á heitu vatni til hans um 97% 1. janúar 2020. „Hérna verður verðið eftir hækkun um 120 krónur fyrir rúmmetrann af vatni en það er 37 krónur upp í Mosfellsdal. Við erum að nota um og yfir 100 þúsund tonn af heitu vatni í Lambhaga. Við erum að borga um 6-800 þúsund krónur á mánuði fyrir heitt vatn. Ef þessi hækkun verður um áramótin þá fer kostnaðurinn í um 1,4 milljónir króna á mánuði eða nærri 16,8 milljónir á ári. Síðan erum við að nota yfir 60 milljónir kílówattstunda af raforku á ári,“ segir Hafberg meðal annars í viðtalinu. 

Hann segir tvennt koma til greina. Annaðhvort leggist starfsemin af í Lambhaga og flytji annað eða sett verður upp kyndistöð í Lambhaga sem brenni plasti, kolum og timburkurli við háan hita líkt og gert er í Noregi og Danmörku. 

„Mér finnst sorglegt að borgin sé að reyna að ýta okkur í burtu með þessum hætti,“ segir Hafberg í viðtalinu. 

Lambhagi á 40 ára afmæli á þessu ári. Fyrirtækið er með 15 þúsund fermetra gróðurhús á svæðinu og þar starfa að jafnaði 25 manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert