Landhelgisgæslan hefur haft samband við Airbus

Leiguþyrlan TF-EIR er af gerðinni Airbus H225 Super Puma.
Leiguþyrlan TF-EIR er af gerðinni Airbus H225 Super Puma. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Landhelgisgæslan fylgist grannt með framvindu rannsóknar á tildrögum þyrluslyss sem varð í Suður-Kóreu sl. fimmtudag þegar þyrla af gerðinni Airbus H225 Super Puma fórst. Landhelgisgæslan hefur kallað eftir upplýsingum frá framleiðandanum Airbus og bíður svara.

Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is. Spurður hvort að Landhelgisgæslan sé að undirbúa ráðstafanir vegna málsins segir Ásgeir að ekkert sem hafi komið fram í málinu kalli á aðgerðir eða ráðstafanir af hálfu Landhelgisgæslunnar.

Þyrlan sem hrapaði í Suður-Kóreu, með þeim afleiðingum að sjö manns létu lífið, er að sömu tegund og þyrlan sem fórst í Noregi fyrir rúmlega þremur árum síðan. Leiguþyrlur Landhelgisgæslunnar TF-EIR og TF-GRO eru sömu tegundar.

Þrettán létust þegar H225 þyrla hrapaði við Tyrøy í Hörðalandi í Noregi í júlí 2016 og voru allar þyrlur af gerðinni H225 kyrrsettar tímabundið á heimsvísu. Rannsóknarnefnd flugslysa í Noregi sagði í lokaskýrslu sinni um málið að málmtæring í gírkassa hefði valdið slysinu og að ekki hafi verið um mannleg mistök að ræða. Í framhaldinu voru gírkassar H225 þyrlnanna endurhannaðir.

Fréttin var uppfærð klukkan 11:25.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert