„Mér er sama ég elska það“

„Mér er sama ég elska það,“ hljómaði í laginu í Instagram-sögunni sem nýsjálenska samfélagsmiðlastjarnan Bridget Thackwray birti af sér þar sem hún keyrði á Mýrdalssandi við Mælifell. Í myndbandinu heyrist hún segja að hún sé að keyra í ánni þar til að skilja ekki eftir dekkjaför sem bendir til þess að hún viti að utanvegaakstur sé ólöglegur.

mbl.is barst ábending um athæfið þar sem náðist að taka upp söguna áður en hún eyddist af Instagram. Í myndbandinu er Bridget að keyra bílinn en hún er ásamt Topher Richwhite að ferðast um heiminn og birtir sögur á samfélagsmiðlum af ævintýrum sínum.

Í svörum frá Umhverfisstofnun við fyrirspurn mbl.is vegna athæfisins segir að sérfræðingur stofnunarinnar hafi skoðað myndbandið og telji að þarna sé ekki um utanvegaakstur að ræða sem valdi skemmdum á náttúru. 

„En hvar þau keyrðu áður eða eftir þetta myndband, vitum við ekki. Áin sér um að þurrka út öll för þar sem hún þvælist um sandana. Eigi að síður er það okkar mat að svona háttalag sé ekki í góðu lagi. Við hvetjum fólk til að halda sig á vegum,“ segir í svarinu.

Á vefnum safetravel.is segir:

Utanvegaakstur er óheimill samkvæmt lögum hér á landi en þó er heimilt að aka utanvega ef snjór er yfir öllu og aðstæður þannig að bifreiðin fer ekki niður úr snjónum og skemmi þannig jörð.

Brot á þessum lögum getur leitt til hárra fjársekta.

Fordæmi eru fyrir því að erlendir ferðamenn hafi fengið háar fjársektir fyrir athæfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka