„Ég hef beðið umsjónarmenn fasteigna Háskóla Íslands um að vera á varðbergi og henda öllum kynþáttaáróðri rakleitt þangað sem hann á heima, í ruslið.“ Þetta skrifar Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, á Facebook í kjölfar þess að rasískum skilaboðum hefur undanfarið verið dreift á háskólasvæðinu.
Jón Atli segir að jafnrétti sé leiðarljós í starfi skólans og grundvöllur fjölbreytni og virðingar í háskólasamfélaginu.
„Þess vegna hryggir það mig að sjá að samtök þjóðernissinna hafa undanfarna daga dreift um háskólasvæðið hatursfullum og rasískum skilaboðum. Við munum ekki láta það líðast,“ skrifar rektor.
Félagsmenn í nýnasistasamtökunum Norðurvígi standa fyrir dreifingunni en þeir hafa límt límmiða og sett dreifimiða í pósthólf nemenda.
Jón Atli segir að allir í Háskóla Íslands eigi að finna fyrir öryggi og allir eigi að standa saman við að tryggja að virðing sé borin fyrir fjölbreytileika mannlífsins.