Selurinn Snorri, sem búið hefur í Húsdýragarðinum frá 1990, drapst á dögunum. Selurinn var fæddur árið 1989 og varð því 30 ára. Frá þessu er greint á Facebook-síðu Fjölskyldu- og húsdýragarðsins.
„Á dögunum gerðist hið óumflýjanlega að brimillinn Snorri sem búið hefur í Húsdýragarðinum frá 1990 kvaddi þessa jarðvist og hélt á fund feðra sinna,“ segir í færslunni.
Þar kom enn fremur fram að Snorri hafði síðustu mánuði sýnt merki þess að aldurinn væri farinn að færast yfir og fór heilsu hans hrakandi síðustu daga.
„Landselsbrimlar verða eftir því sem næst verður komist yfirleitt ekki mikið eldri en 25 ára. Urturnar geta orðið nokkuð eldri, en þær stöllur Kobba og Særún sem dvalið hafa með honum í garðinum eru á sama aldri og hann. Þríeykið voru því elstu dýr garðsins fædd rétt fyrir opnun Húsdýragarðsins.“