Samþykkt var á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar í gær að heimila uppbyggingu skrifstofubyggingar og íbúðarhúsnæðis við Háaleitisbraut 1 í höfuðborginni. Valhöll er á lóðinni en þar má finna skrifstofur Sjálfstæðisflokksins auk tannlæknastofu.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, fagnar áformunum á Twitter-síðu sinni.
Hún greinir þar frá því að á horninu rísi 47 nýjar íbúðir og fimm hæða skrifstofubygging.
Við Valhöll eru nú 88 bílastæði en þau verða 125 og hjólastæðum fjölgar úr engu í 115.
„Þétting byggðar er alltaf góð. Líka í kringum Valhöll,“ skrifar Sigurborg.
Þétting byggðar er alltaf góð. Líka í kringum Valhöll.
— Sigurborg Ósk Haraldsdóttir (@SigurborgOsk) November 6, 2019
47 nýjar íbúðir &
5 hæða ný skrifstofubygging
= Aukning um 7.500 fm2
88 bílastæði verða 125 bílastæði🚗
0 hjólastæði verða 115🚲 pic.twitter.com/hWlobFmXRD
Fram kemur í fundargerð skipulags- og samgönguráðs borgarinnar að í tillögunni felist að tveimur nýjum byggingarreitum verði bætt við á lóð Háaleitisbrautar 1 auk þess sem heimilt verður að stækka hús Veitna við Bolholt 5.
Næst Kringlumýrarbraut verður heimilt að reisa fimm hæða skrifstofubyggingu með bílakjallara. Á horni Skipholts og Bolholts verður heimilt að reisa sex hæða íbúðarhús með bílakjallara ásamt þjónustu- og verslunarrými á 1. hæð.