Helstu rútufyrirtæki landsins buðu í akstursþjónustu fatlaðra í Kópavogi og buðu tvö þeirra, Snæland Grímsson og Teitur Jónasson, talsvert lægra en fjárhagsáætlun bæjarins gerði ráð fyrir.
Haraldur Teitsson, framkvæmdastjóri Teits Jónassonar, segir að rútufyrirtæki séu í auknum mæli farin að horfa til annars konar þjónustu en þjónustu við ferðamenn vegna breyttra aðstæðna á markaði. „Við höfum verið og erum í sambærilegum akstri svo við þekkjum þetta alveg. Markaðurinn er farinn að þrengjast vegna fækkunar ferðamanna og þá þurfa menn einfaldlega að horfa í kringum sig,“ segir Haraldur.
Alls buðu átta fyrirtæki í þjónustuna en tilboð Teits Jónassonar var lægst, eða 776 milljónir króna. Er það 64,7% af áætlun Kópavogsbæjar, sem var upp á 1,2 milljarða króna. Snæland Grímsson bauð næstlægst, eða 934,5 milljónir. Tilboð annarra fyrirtækja voru öll talsvert nær fjárhagsáætluninni. Samningur um þjónustuna er gerður til fimm ára.
Eina fyrirtækið sem bauð hærra en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir var fyrirtækið Ferðó, sem hefur séð um þennan akstur. Bauð það um 1.353 milljónir króna.
Spurður hvort tilboð Teits Jónassonar sé raunhæft segir Haraldur: „Miðað við það hvernig útboðsgögnin eru ætti tilboðið að vera það. Svo spyr maður sig líka út frá hverju kostnaðaráætlunin sé gerð. Ef maður sér fyrri tilboð og fyrri útboð kemur svolítið önnur mynd á þetta. Samkvæmt gögnunum á þetta að vera hægt en svo veit maður aldrei.“
Morgunblaðið leitaði til Kópavogsbæjar vegna útboðsins en almannatengill Kópavogsbæjar gat ekki tjáð sig um málið fyrr en niðurstöður útboðsins yrðu lagðar fyrir bæjarráð. Það verður gert í dag.