Lifði af tvö flugslys sama daginn

Tuula Hyvärinen er þakklát fyrir lífsbjörgina.
Tuula Hyvärinen er þakklát fyrir lífsbjörgina. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég man þegar einn björgunarsveitarmaðurinn gekk í áttina til mín og sagði við mig: „Við hittumst aftur elskan“,“ segir Tuula Hyvärinen þegar hún rifjar upp seinna flugslysið sem hún lenti í sama dag 18. desember árið 1979 á Mosfellsheiði þegar hún var rúmlega tvítug. Þakklæti er henni efst í huga, sérstaklega til björgunarsveitarfólks og heilbrigðisstarfsfólks, sem hlúði vel að henni þegar hún lítur til baka 40 árum eftir þennan örlagaríka dag. 

Hún er stödd hér á landi vegna útkomu bókarinnar, Útkall tifandi tímasprengja, eftir Óttar Sveinsson. Í bókinni er greint frá því þegar Tuula og vinkona hennar frá Finnlandi Maria Elisa Falkenberg lentu í tveimur flugslysum saman daginn. Þess má geta að Ragnar Axelsson, ljósmyndari og blaðamaður á Morgunblaðinu, var á meðal þeirra fyrstu á vettvang og tók þátt í björgunarstarfi og myndaði atburðinn eins og sjá má hér að neðan.  

Tuula og Maria höfðu unnið sem sjúkraþjálfarar á Reykjalundi frá því í janúar sama ár. Dvöl þeirra hér á landi var senn á enda og ætluðu þær að fara aftur heim um jólin. Þær vildu komast í útsýnisflug til að skoða landið betur og báðu vin sinn, Gérard Delavault, sem þær höfðu kynnst í fjallgönguhóp að fljúga með sig. Vinur þeirra John Murthag Russell frá Nýja-Sjálandi, oftast kallaður Russ, ákvað að slást í för með þeim enda flugvélin fjögurra sæta.

Greint var frá flugslysunum á forsíðu Morgunblaðisins.
Greint var frá flugslysunum á forsíðu Morgunblaðisins. Morgunblaðið 19. desember 1979

Þau lögðu af stað frá Reykjavíkurflugvelli upp úr hádeginu og fóru í útsýnisflug meðal annars yfir Gullfoss og Geysi og Þingvallavatn. Þegar flogið var yfir Mosfellsheiði hrapaði flugvélin. Allir fjórir farþegarnir slösuðust mikið, finnsku konurnar slösuðust illa á baki og skriðu út úr vélinni, Russ slasaðist illa í andliti og kastaði upp blóði, flugmaðurinn var einnig slasaður. Þau komust út úr vélinni eftir slysið en þurftu að leita aftur inn í skjól vegna veðurs, snjókomu og kulda. Þau hjúfruðu sig saman til að halda á sér hita vöfðu teppi um sig á meðan þau biðu eftir hjálp. Þau höfðu ekki hugmynd um hvort hjálp myndi berast þeim yfirhöfuð því talstöðin virkaði ekki. 

Loks komu björgunarsveitarmenn að þeim og hlúðu að þeim og skömmu seinna lenti stór bandarísk björgunarþyrla. Ákveðið var að fljúga fyrst með Russ einan á sjúkrahús til baka því hann virtist vera mest slasaður og ná í tvo lækna í leiðinni til að hlúa að þremenningunum. „Björgunarsveitarfólkið hlúði mjög vel að okkur, gaf okkur heitt te, hlýjaði okkur og reyndi að láta okkur líða vel. Mér fannst biðin eftir þyrlunni mjög lengi að líða,” segir Tuula. 

Harðneitaði að fara í þriðja skiptið í flugvél

Þegar þyrlan kom loksins aftur og tók á loft voru ellefu manns um borð, þeirra á meðal Tuula, Maria og flugmaðurinn Gérard. Nokkrum mínútum eftir að þyrlan tók á loft hrapaði hún til jarðar um 200 metrum frá fyrri slysstað. Í fyrstu voru allir taldir af. „Þegar þyrlan byrjaði að hrapa hugsaði ég með mér að þetta gæti ekki verið að gerast. Ég trúði þessu ekki,“ segir Tuula. Hún kom sér út úr þyrlunni beint á eftir Mariu. Hún var illa áttuð og fékk strax sprautu í lærið með lyfjum. Eftir það man hún ekki mjög mikið að því frátöldu að hún harðneitaði að fara aftur um borð í þyrlu eða flugvél á sjúkrahús til Reykjavíkur. „Ég sagði nei og vildi komast með bíl á sjúkrahúsið,“ segir Tuula. 

Megn eldsneytisgufa og neistaflug stóð af þyrlunni og mikil hætta var á að það myndi kvikna í henni. Farþegarnir allir geta þakkað Hallgrími Skúla Karlssyni, sem var 19 ára gamall björgunarsveitarmaður á vettvangi, fyrir lífsbjörgina. Hann lagði sig í lífshættu með því að aftengja rofa þyrlunnar. Seinna var hann heiðraður fyrir þetta björgunarafrek.

Björgunarsveitarfólk stóð sig vel, að sögn finnsku konunnar sem lenti …
Björgunarsveitarfólk stóð sig vel, að sögn finnsku konunnar sem lenti í tveimur flugslysum sama daginn. mbl.is/RAX

Björgunarsveitarfólk hóf þegar að undirbúa farþegana undir flutning á spítalann. Um miðnætti komust þau loks á Borgarspítalann og Tuula fór fljótlega í aðgerð á baki. Þar lágu þær vinkonurnar saman í herbergi næstu vikur og mánuði og eftir það tók við endurhæfing á Grensás áður en þær flugu heim í mars árið 1980.   

Bókin er tileinkuð björgunarsveitarmanninum Hallgrími Skúla Karlssyni sem lést árið 2010 og Maria Elisa Falkenberg sem lést árið 2014.

„Þetta er kraftaverk“

„Þegar Óttar hafði samband við mig og vildi skrifa bók um atburðina hringdi ég daginn eftir í systur Mariu og sagði henni frá því að til stæði að skrifa bók um slysið og að saga Mariu yrði einnig sögð. „Þetta er kraftaverk,“ sagði systir hennar þegar ég hringdi því daginn áður hafði hún skoðað gamalt dót úr eigu Mariu og fundið kassettu frá systur sinni sem tekin var upp á Borgarspítalanum þar sem hún lýsir nákvæmlega slysinu og hvernig henni leið um áramótin. Mér leið eins og að hún væri að tala við okkur að handan. Hún vildi greinilega að hennar rödd fengi að heyrast,“ segir Tuula og hlær.

Saga Mariu er tvinnuð saman við frásögnina. Tuula segir að frásögn vinkonu sinnar sé mjög nákvæm og mun nákvæmari en hún man sjálf frá á þessum degi. „Ég þurfti að fletta í gegnum dagbækur og leggja mig fram um að rifja þetta upp,“ segir Tuula.  

Tuula Hyvärinen og Óttar Sveinsson hföndur bókarinnar Útkall tifandi tímasprengja …
Tuula Hyvärinen og Óttar Sveinsson hföndur bókarinnar Útkall tifandi tímasprengja sem segir frá tveimur flugslysum sem Tuula lenti í sama daginn fyrir 40 árum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún kom síðast til landsins árið 1997 með vinkonu sinni Mariu í 10 daga ferð. Þær ferðuðust víða og skoðuðu Reykjalund, gamla vinnustað þeirra. „Reykjavík hefur breyst mikið en ekki náttúran og fólkið,“ segir hún. Áður en hún fer aftur heim til Finnlands ætlar hún að hitta gamla vinnufélaga á Reykjalundi og rifja upp gamla tíma. 

Í dag er Tuula ekki laus við að vera hrædd við að fljúga, henni líður ekki vel um borð í flugvél en hún lætur sig samt hafa það. Þegar vinkonurnar lentu í slysinu fyrir fjörutíu árum fengu þær enga áfallahjálp. Maria og Tuula gátu rætt saman um áfallið sem þær lentu í.

Þegar Tuula kom heim til Finnlands tók það hana talsverðan tíma að jafna sig bæði andlega og líkamlega. Hún hrökk alltaf í kút þegar dagblað barst inn um lúguna og óttaðist að stríð myndi bresta á. Smáma saman jafnaði hún sig og fór að vinna hálfu ári eftir slysið sem sjúkraþjálfari.

Í dag líður henni illa í þröngu rými, hún fer ekki lengur í fjallgöngur, sem var hennar líf og yndi þegar hún dvaldi hér á landi, vegna lofthræðslu og er nokkuð flughrædd. Hún tekur verkjalyf við bakverkjum nánast daglega en að öðru leyti er hún hamingjusöm. „Ég á tvær yndislegar dætur og tvö barnabörn. Ég er hér á lífi að tala við þig og lífið er gott,“ segir hún brosandi og hlær og bætir við: „Þessi bók hefur verið eins og góð þerapía fyrir mig. Ég er þakklát að geta haft tækifæri til að segja þessa sögu.“  

Ragnar Axelsson, ljósmyndari og blaðamaður á Morgunblaðinu, var á meðal …
Ragnar Axelsson, ljósmyndari og blaðamaður á Morgunblaðinu, var á meðal þeirra fyrstu á vettvang og tók þátt í björgunarstarfI. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert