Engin goðgá að benda á hið augljósa

Arnar Þór Jónsson héraðsdómari.
Arnar Þór Jónsson héraðsdómari. mbl.is/RAX

Kveðinn var upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þar sem Arnar Þór Jónsson héraðsdómari hafnaði því að honum bæri að víkja sæti í máli sem snýr að kröfu starfsmanna Samgöngustofu um að viðurkennt verði að níu vinnuferðir, fjórar til Ísraels og fimm til Sádi-Arabíu, hafi verið flokkaðar sem vinnutími hans.

Vísað er í kröfunni um að Arnar Þór víki sæti til viðtals mbl.is við hann og aðsendrar greinar í Morgunblaðinu um þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Telur lögmaður starfsmannsins, Eyjólfur Orri Sverrisson, að draga megi í efa óhlutdrægni Arnars Þórs vegna þeirra skoðana sem hann hafi látið í ljós. Reyna muni verulega á EES-rétt í málinu að mati Eyjólfs, meðal annars gæti verið óskað eftir ráðgefandi áliti frá EFTA-dómstólnum, og ljóst sé að vilji Arnars standi til þess að EES-réttur gildi ekki hér á landi.

Valdaframsalið á veikum grunni

Fram kemur í úrskurði Arnars Þórs að samkvæmt stjórnarskránni skuli dómendur í embættisverkum sínum einungis fara eftir lögunum. Segir hann ekki hafa verið færð viðhlítandi rök fyrir því að gera megi ráð fyrir því út frá ummælum hans í viðtalinu og greininni að hann myndi ekki dæma eftir þeir lagareglum sem hefðu verið innleidd í íslenskan rétt með lögformlegum og stjórnskipulega réttum hætti.

Verið sé að krefjast þess í raun að dómari víki dæti í málinu fyrir að benda á að í réttarríki sé lögunum ætlað að byggja á lýðræðislegum grunni, vera skýr, veita fyrirsjáanleika, marka umgjörð um samfélag manna og eyða réttaróvissu. Kæmi til þess að óskað væri eftir ráðgefandi áliti yrði það gert á grundvelli viðeigandi réttarreglna.

mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Dómarinn bendir á að við blasi að valdaframsal til stofnana EES hafi reynst umfangsmeira en gert hafi verið ráð fyrir við gildistöku EES-samningsins árið 1994 enda hafi þróunin öll verið á þá leið að veita þessum stofnunum auknar valdheimildir, meðal annars til að taka íþyngjandi ákvarðanir fyrir íslenska ríkisborgara og lögaðila.

Fyrir vikið gæti það ekki talist nein goðgá að benda á hið augljósa sem væri það að ytri mörk framsals íslensks ríkisvalds væru næsta óljós og að viðamikið framsal valdheimilda íslenska ríkisins til stofnana EES byggði á veikum grunni sem dómurum bæri að hafa vakandi auga á en dæma svo á grundvelli laganna.

Tjáningin lögmæt og réttlætanleg

„Með vísan til stjórnarskrárvarinnar meginreglu um tjáningarfrelsi og þeirra undanþága frá almennum höftum sem hlutverk dómara leggur þeim á herðar í þessu samhengi telur undirritaður að tjáning hans um þriðja orkupakka ESB hafi verið lögmæt og réttlætanleg hvatning til þess að Alþingi axlaði ábyrgð á stjórnskipulegu hlutverki sínu sem lýðræðislega kjörið löggjafarþing en forðaðist í lengstu lög að setja svo misvísandi reglur að stefnumörkun væri í reynd ýtt yfir á dómstóla. Sú umræða tengist sjálfum undirstöðum réttarríkisins og að mati undirritaðs er örðugt að gera of mikið úr alvarleika þeirra álitaefna sem þar blasa við,“ segir Arnar enn fremur.

Ekki fælist í því gagnger andstaða við Evrópurétt sem slíkan „heldur ákall um það að reglur sem leiddar eru í lög hér á landi mótist af lýðræðislegum kröftum, að stofnanir EES lúti lýðræðislegri valdtemprun og að tryggt sé að framsal íslensks ríkisvalds, virt almennt og heildstætt en ekki þröngt og sértækt, yfirstígi ekki þau ytri mörk sem heimil geta talist samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert