Nýlegar jarðsjármælingar benda til þess að fornar rústir kunni að leynast undir túni á Keldum á Rangárvöllum.
Dr. Steinunn J. Kristjánsdóttir, fornleifafræðingur og prófessor, segir að uppgröft þurfi til að sannreyna hvað er þarna undir og hvers eðlis þessar byggingar hafi verið. Einnig þurfi að gera aldursgreiningu til að vita hvað þetta er gamalt. Ekki er vitað um neinar byggingar á þessum stað á seinni tímum.
Sagt er að íbúðarhús Jóns Loftssonar, þess mikla höfðingja og stofnanda Keldnaklausturs, hafi staðið á þessu túni. Lækur skilur að túnið og bæjarhúsatorfuna og lítil náttúruleg brú yfir hann. Nú sjást engar rústir á þessum stað.