Vinna erlendra sérfræðinga við að fjarlæga asbest úr rússneska togaranum Orlik hefst á næstu vikum. Útlit er fyrir að niðurrif togarans hefjist á nýju ári.
Umhverfisráðuneytið hefur veitt Skipasmíðastöð Njarðvíkur leyfi til niðurrifsins.
Niðurrifið var nýhafið þegar það var stöðvað 3. september sl. eftir fyrirvaralausa úttekt Umhverfisstofnunar. Skipasmíðastöð Njarðvíkur hefur starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja til niðurrifs skipa allt að 500 tonn. Orlik vegur hins vegar yfir 500 tonn og þurfti því að sækja um leyfi til Umhverfisstofnunar.
Er í eigu Hringrásar
Orlik hefur legið við Njarðvíkurhöfn frá 2014 en togarinn er í eigu Hringrásar.
Daði Guðjónsson, framkvæmdastjóri Hringrásar, segir fyrirtækið munu vinna sem undirverktaki Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur við niðurrifið.
Fyrsti verkþátturinn sé hreinsun á asbesti úr skipinu. Erlendir sérfræðingar muni fara í verkefnið. Sá verkþáttur muni taka 2-3 vikur í undirbúningi.
Vilja byrja í nóvember
„Vonandi getur sú vinna hafist í þessum mánuði. Það þarf að fara í gegnum ákveðið ferli hjá Heilbrigðiseftirlitinu og Vinnueftirlitinu,“ segir Daði.
Spurður hvort ekki sé slæmt að geta ekki hafið verkefnið fyrir veturinn segir Daði það ekki veðurháð. Skipið sé komið á fast. „Þegar við erum búin að hreinsa asbestið klippum við skipið niður með stórvirkum vinnuvélum. Það er mjög lítið gert í höndunum,“ segir Daði.
Hann segir verkefnið hafa tafist um tvo mánuði. Asbesthreinsun hafi frestast út af stöðvun framkvæmda. Nákvæmari verkáætlun liggi fyrir í næstu viku. Það geti tekið 6-8 vikur að fjarlægja asbestið.
„Það verður því ekki fyrr en eftir jól sem við getum farið að klippa skipið niður,“ segir Daði.