Herdís lætur af störfum á Reykjalundi

„Mín persóna hefur að ósekju dregist inn í deilur sem …
„Mín persóna hefur að ósekju dregist inn í deilur sem eiga sér djúpar rætur og forsögu sem er mér með öllu óviðkomandi,“ segir Herdís í skilaboðum sínum til starfsmanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Herdís Gunnarsdóttir, settur forstjóri Reykjalundar, ætlar að láta af störfum í næstu viku. Hún greindi starfsfólki á Reykjalundi frá þessu síðdegis í dag, en tilkynning um þetta barst skömmu eftir að tilkynning barst frá stjórn SÍBS um að vilji stjórnarinnar væri að heilbrigðisráðherra skipaði starfsstjórn yfir stofnunina.

„Mín persóna hefur að ósekju dregist inn í deilur sem eiga sér djúpar rætur og forsögu sem er mér með öllu óviðkomandi. Ég gekk inn í mjög erfiðar aðstæður, að beiðni stjórnar SÍBS, og hef sem forstjóri komið því til leiðar sem ég taldi nauðsynleg næstu skref í flóknum aðstæðum. Ég lít svo á að ég hafi lokið þeim verkefnum sem ég var kölluð til tímabundið sem forstjóri og þau tvö skilyrði sem ég tel nauðsynleg verkefni fram á við séu nú komin í höfn. Í ljósi þess hef ég ákveðið að hætta störfum á Reykjalundi, frá því tímamarki sem starfstjórn tekur til starfa í næstu viku,“ segir Herdís í skilaboðum sínum til starfsmanna.

Herdís Gunnarsdóttir lætur af störfum á Reykjalundi er starfsstjórn verður …
Herdís Gunnarsdóttir lætur af störfum á Reykjalundi er starfsstjórn verður skipuð yfir stofnuninni. Ljósmynd/Aðsend

Póstur Herdísar til starfsmanna í heild sinni:

„Í ágústmánuði bauð þáverandi forstjóri Reykjalundar mér starf framkvæmdastjóra endurhæfingarsviðs, að afloknu faglegu ráðningarferli. Ég þáði boðið og réði mig til starfa á Reykjalundi, í góðri trú og af einlægum áhuga. Hlakkaði mikið til að taka þátt í því góða starfi sem Reykjalundur er þekktur fyrir og bjóða fram færni mína og krafta fyrir starfsemina.

Strax á fyrsta degi í starfi varð mér ljóst að framundan væru miklir óvissutímar. Forstjóra Reykjalundar hafði verið sagt upp störfum fáeinum klukkustundum eftir að ég ritaði undir ráðningarsamning og nokkrum dögum síðar framkvæmdastjóra lækninga. Staðan kom mér mjög á óvart, en síðar kom á daginn að við ráðningu mína hafði ég ekki verið upplýst um afar mikilvæg atriði sem vörðuðu starfsemina og innri samskipti á vinnustaðnum. 

Atburðarásin frá uppsögn fyrrum forstjóra hefur dregið upp á yfirborðið mikla ólgu sem hefur kraumað undir yfirborðinu til lengri tíma, eins og öllum er löngu orðið ljóst. Við þær aðstæður tók ég umbeðin að mér starf forstjóra tímabundið. Tvö skilyrði setti ég fyrir þeirri tímabundnu skipan minni í starf forstjóra; 1) að starf forstjóra yrði auglýst og hann ráðinn í faglegu ferli og 2) að skipuð yrði starfsstjórn yfir Reykjalund með það að markmiði að endurskipuleggja stjórnfyrirkomulag, skipurit og rekstrarform á meðan unnið væri að varanlegri lausn fyrir vinnustaðinn. Hvoru tveggja er nú í góðum farvegi; ráðning forstjóra er í gangi og starfsstjórn Reykjalundar verður skipuð.

Við þau tímamót tel ég rétt að staldra við og endurskoða mína aðkomu að Reykjalundi. Aðstæður voru og eru nú allt aðrar en mér voru kynntar í lok sumars, þegar ég var ráðin til starfa sem framkvæmdastjóri og síðar tímabundið sem forstjóri. Mín persóna hefur að ósekju dregist inn í deilur sem eiga sér djúpar rætur og forsögu sem er mér með öllu óviðkomandi. Ég gekk inn í mjög erfiðar aðstæður, að beiðni stjórnar SÍBS, og hef sem forstjóri komið því til leiðar sem ég taldi nauðsynleg næstu skref í flóknum aðstæðum. Ég lít svo á að ég hafi lokið þeim verkefnum sem ég var kölluð til tímabundið sem forstjóri og þau tvö skilyrði sem ég tel nauðsynleg verkefni fram á við séu nú komin í höfn. Í ljósi þess hef ég ákveðið að hætta störfum á Reykjalundi, frá því tímamarki sem starfstjórn tekur til starfa í næstu viku.

Ég óska Reykjalundi alls hins besta og vona af öllu hjarta, að starfsfólki og framtíðarstjórnendum Reykjalundar gangi vel að vinna úr þeim áföllum sem dunið hafa yfir, að endurhæfa sjálfan vinnustaðinn, bæta lífsgæði og hamingju þeirra sem hér starfa. Aðeins þannig getur Reykjalundur sinnt sínu hlutverki, skjólstæðingum til heilla.

Herdís Gunnarsdóttir“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka