Staða garðyrkjunnar verður að teljast góð þegar horft er til afkomu hennar, efnahags og stöðu á markaði ásamt kolefnisspori, að mati Vífils Karlssonar hagfræðings. Hann skrifaði skýrsluna Landfræðilegt og efnahagslegt litróf garðyrkju á Íslandi.
Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (sass.is) áttu frumkvæði að skýrslunni og kostuðu hana. Í skýrslunni kemur fram að garðyrkja á Íslandi hafi skilað góðri afkomu til lengri tíma litið.
„Það kom mér einna mest á óvart hvað afkoman var í raun góð samanborið við landbúnað yfirleitt,“ sagði Vífill. „Ég sagði áður að hrossarækt væri bjartasta vonin í íslenskum landbúnaði en ég hef skipt um skoðun.“
Framleiðendur í garðyrkju eru um 200 talsins og hefur fækkað nokkuð. Það verður samt að teljast allnokkuð á svo litlum markaði sem Ísland er. Hverfandi lítið af afurðum er flutt til útlanda en nefna má að fjölgun ferðamanna hefur sagt til sín í sölu afurða.
Garðyrkjan velti um 6,1 milljarði króna árið 2017 en landbúnaðurinn í heild velti 73,2 milljörðum sama ár. Rekstrartekjur garðyrkjunnar skiptust þannig að 37% voru í ræktun á öðru ótöldu grænmeti, rótum og hnýði, 20% í aldingrænmeti og papriku, 17% í kartöflurækt, 15% í blómarækt, 6% í ræktun annarra nytjajurta og 5% í plöntufjölgun. Sé horft til rekstrartekna er garðyrkja stærst á Suðurlandi, um 67%, næststærst á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, 14%, og 9% á Norðurlandi eystra.
Í Bændablaðinu í gær kom fram að þrátt fyrir mikinn velvilja neytenda í garð íslenskra garðyrkjubænda og yfirlýsinga stjórnmálamanna um mikilvægi innlendrar grænmetisframleiðslu, þá hefur innlend grænmetisframleiðsla hrapað á níu árum.
„Hefur hún fallið úr því að anna 75% af eftirspurninni á innanlandsmarkaði niður í 52% samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Garðyrkjubændur hafa árum saman varað yfirvöld við að hátt orkuverð myndi leiða til samdráttar í framleiðslunni og vöruðu þeir sérstaklega við samþykkt á innleiðingu á tilskipunum Evrópusambandsins um orkupakka 3. Vegna þeirrar tilskipunar og innleiðingu á þeim tilskipunum sem á undan komu hafa garðyrkjubændur óttast að sameiginlegur orkumarkaður Evrópu muni enn frekar þvinga upp orkuverð á Íslandi. Það muni eyða út mögulegu forskoti vegna hagkvæmrar orkuframleiðslu á Íslandi.
Tók formaður Sambands garðyrkjubænda svo djúpt í árinni að segja að þetta gæti leitt til þess að ylrækt legðist af á Íslandi. Virðist sem tölur Hagstofu Íslands styðji þessar áhyggjur garðyrkjubænda,“ samkvæmt frétt Bændablaðsins í gær.