Meðalverð á fermetra 637 þúsund

Meðalfermetraverðið í miðborginni nálgast 640 þúsund.
Meðalfermetraverðið í miðborginni nálgast 640 þúsund. Morgunblaðið/Eggert

Meðalverð á fermetra í nýjum íbúðum í miðborg Reykjavíkur er um 637 þúsund síðasta hálfa árið. Miðað er við kaupsamninga á íbúðum sem byggðar voru 2018-2019. Meðalkaupverð íbúðar var tæpar 63 milljónir og meðalstærð 99 fermetrar í alls 14 kaupsamningum.

Samningarnir eru frá síðustu sex mánuðum.

Þetta er meðal upplýsinga sem sækja má í verðsjá Þjóðskrár Íslands.

En þær veita mikilvægar upplýsingar um þróun kaupverðs í nýbyggingum á höfuðborgarsvæðinu.

Í Háaleiti í Reykjavík var meðalfermetraverðið 626 þúsund og meðalkaupverð 49,5 milljónir króna. Meðalstærð var 79 fermetrar. Alls voru þetta 34 kaupsamningar.

Meðalstærðin 74 fermetrar

Í Grafarholti í Reykjavík var meðalfermetraverðið tæpar 553 þúsund. Meðalkaupverð var 40,9 milljónir og meðalstærð 74 fermetrar. Alls voru þetta fimm kaupsamningar.

Í Urriðaholti í Garðabæ var meðalfermetraverð 528 þúsund og meðalkaupverð 55,2 milljónir. Meðalstærð var 104 fermetrar og kaupsamningarnir 21 talsins.

Í Vesturbæ Kópavogs var meðalfermetraverðið 565 þúsund og meðalkaupverð 68,4 milljónir. Meðalstærð var 121 fermetri og alls gerðir 24 kaupsamningar. Kársnesið tilheyrir Vesturbæ Kópavogs, en þar er fjöldi nýrra íbúða í boði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert