Frumvarp til fjáraukalaga var lagt fram á Alþingi í dag. Frumvarpið felur í sér að fjárheimildir málefnasviða og málaflokka ríkisins verði um 14,8 milljörðum meiri á árinu 2019 en gert er ráð fyrir í gildandi fjárlögum. Aukin framlög vegna atvinnuleysisbóta og í Ábyrgðarsjóð launa eru þar veigamikill þáttur, en þau nema 7,6 milljörðum króna.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að atvinnuleysi stefni í að verða 3,5% á þessu ári, samanborið við 2,4% í fyrra, sem að miklu leyti megi rekja til falls flugfélagsins WOW air í marsmánuði.
Þá verða greiðslur vegna fæðingarorlofs rúmlega 1,1 milljarði hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins, en aukninguna má helst rekja til þess að hámarksgreiðslur hafa hækkað frá fyrra ári, auk þess sem foreldrum sem taka fæðingarorlof hefur fjölgað umfram forsendur fjárlaga.
Útgjöld vegna málefna fatlaðs fólks og málefna aldraðra aukast svo um 7,3 milljarða króna, en þar af vega þyngst einskiptisútgjöld vegna dóms Landsréttar um ólögmæti afturvirkrar skerðingar á greiðslum til ellilífeyrisþega vegna greiðslna úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Áætluð áhrif dómsins nema um 5,4 milljörðum króna, en 29.000 einstaklinga fengu leiðréttingu á greiðslum ellífeyris vegna málsins, um 190.000 á hvern ellilífeyrisþega að meðaltali.
Einnig er verið að leiðrétta örorkubætur aftur í tímann, vegna álits umboðsmanns Alþingis varðandi áhrif búsetutíma erlendis á rétt til örörkulæífeyris.
„Athugun umboðsmanns laut að því hvernig bæri að reikna tímann fram til 67 ára aldurs við ákvörðun búsetutíma í tilviki einstaklinga sem áður hafa verið búsettir innan EES-svæðisins. Áhrif af áliti umboðsmanns nema um 800 m.kr. á árinu 2019 en alls hafa 320 manns fengið leiðréttingu það sem af er ári,“ segir í greinargerð frumvarpsins.
Fram kemur í greinargerðinni að gert sér ráð fyrir tæplega einum og hálfum milljarði vegna halla sjúkratryggingaliða, sem ekki hafi verið brugðist við með viðeigandi ráðstöfunum. Þar er einkum að ræða umframútgjöld vegna sjúkraþjálfunar sem nema 660 milljónum króna og fara þau útgjöld 13% umfram gildandi fjárlög.
Einnig er áætlað að útgjöld vegna erlendrar sjúkrahúsþjónustu verði 410 milljónum krónum meiri en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga og útgjöld vegna hjálpartækja verði 270 milljónum meiri.
Þá verða framlög til samgöngumála aukin um 790 milljónir króna, vegna þessa ófyrirséða viðbótarkostnaðar sem Vegagerðin þurfti að greiða vegna nýs Herjólfs. Þar er annars vegar um að ræða uppgjör til skipasmíðastöðvarinnar Christ í Póllandi og kostnaðarauka vegna seinkunar á afhendingu skipsins til Vestmannaeyjabæjar, sem nú annast rekstur farþegaferjunnar.