Íbúar miðbæjar komnir með leið á tíðu raski

Óðinsgata. Víða er erfitt að athafna sig í Reykjavík, eins …
Óðinsgata. Víða er erfitt að athafna sig í Reykjavík, eins og þessi mynd sem tekin var nýverið sýnir. mbl.is/Árni Sæberg

Tafir á framkvæmdum í miðborg Reykjavíkur og óánægja meðal íbúa og verslunareigenda vegna þeirra hafa verið til umræðu í fjölmiðlum að undanförnu. Benóný Ægisson, formaður íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur, segir fólk vera orðið langþreytt á tíðum framkvæmdum og því mikla raski sem þeim fylgi.

„Fjölmargir íbúar og rekstraraðilar hafa verið í sambandi við mig og kvarta þeir allir yfir afar slæmu aðgengi og miklum töfum á framkvæmdum. Það er óhætt að fullyrða að mikil framkvæmdaþreyta er komin í íbúa miðborgarinnar,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

Endurtekið hafa komið upp mál þar sem seinagangur er mikill í framkvæmdum. Þannig hafa m.a. verslunarmenn ítrekað kvartað undan hægum gangi á Hverfisgötu og hefur verið greint frá því að einn þeirra muni krefja borgina bóta, en rask þar hefur haft skaðleg áhrif á rekstur hans. Nýlega var greint frá töfum á endurbótum við Óðinsgötu, Óðinstorg og Týsgötu. Áttu verklok þar að vera í nóvember en nú er vonast til að ljúka verkinu fyrir jól.

„Fólk er orðið mjög þreytt á þessum framkvæmdum um alla borg og vill bara að þeim fari að ljúka. Þessar tálmanir á umferð, bæði fyrir gangandi og akandi, eru mörgum erfiðar. Svo má ekki gleyma því að þessum framkvæmdum fylgir mikill hávaði og óþrifnaður,“ segir Benóný í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka