Helgi Bjarnason
„Ég leyni því ekki að ég er vonsvikin. Við höfum unnið mjög vel saman þessi fimm félög og töldum að við ættum ágæta samleið,“ segir Ragnheiður Bóasdóttir, formaður Félags háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins (FHSS).
Félagsmenn felldu kjarasamninga sem samflot fimm félaga innan BHM gerðu við ríkið. Hin fjögur félögin samþykktu samningana og munu þeir taka gildi gagnvart þeim.
„Ég er mjög þakklátur, sérstaklega fyrir mikla þátttöku hjá félagsmönnum Fræðagarðs. Umræðan hefur verið hreinskiptin og góð. Við erum mikið að hugsa til framtíðar. Samið var um atriði sem varða yngra fólk,“ segir Bragi Skúlason, formaður Fræðagarðs sem er stærsta félagið í samflotinu.
Félögin fimm eru auk Fræðagarðs og FHSS, Stéttarfélag lögfræðinga, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga og Félag íslenskra félagsvísindamanna. Alls greiddu 1.456 félagsmenn atkvæði og var þátttaka að meðaltali rúmlega 67%.