Umhverfisstofnun (UST) leitaði ekki tilboða þegar hún samdi við félagið Attentus – mannauð og ráðgjöf. Þetta kemur fram í svari upplýsingafulltrúa stofnunarinnar við fyrirspurn Morgunblaðsins.
„Tilefni viðskipta við Attentus voru veikindi mannauðsstjóra og brýn verkefni í mannauðsmálum. Ekki var leitað tilboða eins og vissulega hefði þó verið rétt að gera. Ástæðan var að aðeins átti að brúa mjög stutt tímabil. Þegar í ljós kom að það myndi reynast lengra réð Umhverfisstofnun mannauðsstjóra til starfa,“ sagði í svari Björns Þorlákssonar upplýsingafulltrúa.
Alls var um að ræða sex reikninga sem gefnir voru út á tímabilinu frá 8. maí til 30. september. Einn hljóðaði upp á 92 þúsund krónur en hinir fimm upp á um 400 þúsund krónur. Samtals 2.101.918 krónur. Á tímabilinu keyptu átta ráðuneyti eða stofnanir þjónustu af Attentus fyrir 2 milljónir eða meira.