Umboðsmaður sendir tilmæli vegna framkvæmda

Hverfisgata í byrjun nóvember. Verkið hófst í maí og átti …
Hverfisgata í byrjun nóvember. Verkið hófst í maí og átti að ljúka í ágúst en nokkuð er eftir enn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Umboðsmaður borgarbúa hefur sent frá sér almenn tilmæli til Reykjavíkurborgar vegna framkvæmda í miðborginni og á öðrum viðkvæmum rekstrarsvæðum. Umboðsmanni bárust erindi frá rekstaraðilum í grennd við framkvæmdastaði í miðborginni, sem áttu það sammerkt að lýsa neikvæðum upplifunum af framkvæmdunum, sem jafnvel hafi leitt til þess að þeir hafi þurft að hætta rekstri. 

Þessi erindi, auk fjölmiðlaumfjöllunar um framkvæmdir á Hverfisgötu og við Óðinstorg, urðu umboðsmanni tilefni til að setja þessi tilmæli fram, en þau eru fjórþætt.

Ingi B. Poulsen er umboðsmaður borgarbúa.
Ingi B. Poulsen er umboðsmaður borgarbúa. Ljósmynd/Bernhard Kristinn Ingimundarson

Ingi B. Poulsen gegnir embætti umboðsmanns borgarbúa. Hann segir í tilmælum sínum að Reykjavíkurborg ætti að hefja samráð og samtal við hagsmunaaðila snemma í framkvæmdaferlinu.

„Í þeim tilvikum sem umboðsmaður hefur tekið til skoðunar hefur meðal annars verið kvartað undan því að framkvæmdir hafi verið tilkynntar með stuttum fyrirvara, rétt fyrir upphaf verktíma, og rekstraraðilar hafi verið búnir að ráða inn sumarstarfsmenn sem þeir hafi síðar þurft að segja upp störfum vegna þeirra áhrifa sem framkvæmdirnar höfðu á reksturinn. Til þess að tryggja að þær aðstæður komi ekki upp er mikilvægt að tilkynna um fyrirhugaðar framkvæmdir um leið og þær hafa verið ákveðnar,“ segir í tilmælum umboðsmanns.

Hagsmunaaðilar fái að skilja alla verkþætti

Þannig er því beint til borgarinnar að hefja „skilvirkt og raunverulegt samráð“ við hagsmunaaðila og framkvæmdaaðila með því að kalla alla saman til fundar áður en verkið hefst, með eins góðum fyrirvara og unnt er.

„Mikilvægt er að hagsmunaaðilum gefist kostur á að skilji hver fer með hvaða hlutverk og hver ber ábyrgð á hvaða verkþætti og þeim áhrifum sem hann kann að hafa á hagsmunaaðila,“ segir umboðsmaður.

Gerðar verði auknar kröfur um flæðileiðir

Óðinsgata. Víða er erfitt að athafna sig í Reykjavík, eins …
Óðinsgata. Víða er erfitt að athafna sig í Reykjavík, eins og þessi mynd sem tekin var nýverið sýnir. mbl.is/Árni Sæberg

Umboðsmaður segir að umkvörtunarefni fyrirtækjanna snúi að stórum hluta að aðgengismálum. Göngu- og hjáleiðir um og í kringum framkvæmdasvæði séu óskýrar og útlit svæðanna í heild óaðlaðandi, þar sem verktakar noti gjarnan háar en lausar málmgirðingar sem hafi í för með sér sjónlýti og virki fráhrindandi fyrir gangandi vegfarendur.

Hann leggur til að ítarlegri kröfur verði geraðr til hönnunar á flæðileiðum og útliti framkvæmdasvæðis. Hönnuðum verði gert að skila inn ítarlegum teikningum um flæðileiðir um og framhjá framkvæmdasvæðinu, þar sem leiðir vegfarenda verði greindar „með skýrum og skipulögðum hætti.“

Mótvægisaðgerðir með markaðsáætlun

Þriðju tilmæli umboðsmanns lúta að því að borgin bjóði mótvægisaðgerðir þegar framkvæmdir hafi fyrirsjáanlega neikvæð áhrif á rekstur þeirra aðila sem innan svæðisins starfa.

Umboðsmaður mælist til þess að borgin geri heildstæða markaðsáætlun um framkvæmdirnar til þess að upplýsa almenning um þær og til þess að draga úr neikvæðum áhrifum á rekstraraðila á svæðinu. Athygli verði vakin á því að tilgreind fyrirtæki séu með opna og óbreytta starfsemi, með skýrum merkingum, skiltum og myndrænni framsetningu á girðingum og afmörkunum á svæðinu.

„Eins gæti Reykjavíkurborg auglýst framkvæmdirnar á samfélagsmiðlum og vefsvæðum og víðar og nýtt tækifærið til að vekja athygli á þeim fyrirtækjum sem innan svæðisins starfa. Þá mæti kanna sértækar aðgerðir svo sem að bjóða frí bílastæði í nærliggjandi bílastæðahúsum með það að markmiði að draga fremur umferð að svæðinu. Mótvægisaðgerðir verði unnar í samráði við hagsmunaaðila,“ segir umboðsmaður.

Skýr upplýsingagjöf

Að síðustu leggur umboðsmaður til að umboðskeðja og verkskipulag skipulagseininga verði skýrt og aðgengilegt öllum. Hann mælist til þess að verkferlar verði aðgengilegir á vefsíðu Reykjavíkurborgar, þannig að allir geti kynnt sér það hverjir koma að framkvæmdunum og hvernig ferlið, allt frá hugmynd til framkvæmdaloka, líti út.

Þá leggur umboðsmaður einnig til það sé skipulagt fyrirfram hver annist samskipti út á við á verktíma, bæði hvað varðar upplýsingagjöf til hagsmunaaðila og fjölmiðla.

„Tryggt sé að upplýsingamiðlun sé í höndum aðila með þekkingu á því hlutverki og að viðkomandi aðili sé vel að sér í framkvæmdunum allan framkvæmdatímann. Með því er komið í veg fyrir að einstakir sérfræðingar er koma að verkinu sjálfu verji óhóflegum tíma í upplýsingamiðlun í stað þess að þeir einbeiti sér að þeim verkefnum sem þeim hefur verið falið á verktíma,“ segir umboðsmaður.

Hverfisgatan sundurgrafin í júnímánuði.
Hverfisgatan sundurgrafin í júnímánuði. mbl.is/RAX

Vonar að þetta leiði til umbóta

Umboðsmaður segir að á næstu árum liggi fyrir að ráðist verði í talsverðar gatnaframkvæmdi á afmörkuðum svæðum í miðborginni, til dæmis á Laugavegi, sem breyta á í göngugötu. Hann segir það sameiginlega hagsmuni borgarinnar, verktaka og annarra hagsmunaaðila að slíkar framkvæmdi gangi sem best fyrir sig.

„Að mati umboðsmanns er mikilvægt að skipulag og útfærsla framkvæmda af þessum toga miði að því að ná eins miklu jafnvægi á milli hagsmuna Reykjavíkurborgar og framkvæmdaraðila annars vegar og hagsmunaaðila á svæðinu hins vegar. Er það von umboðsmanns að tilmæli þessi leiði til umbóta í tengslum við skipulag framkvæmda í borgarlandinu í framtíðinni,“ segir umboðsmaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert