Bað ekki guð um peninga

Hjónin Dzonic og Slavica Osman létu vel af dvölinni á …
Hjónin Dzonic og Slavica Osman létu vel af dvölinni á Íslandi árið 1959.

„Ég er satt að segja enginn trúmaður. Ég er nútímamaður og efnishyggjumaður og ég veit að það gagnar ekkert að biðja guð um peninga eða bætt lífskjör.“ Þetta sagði júgóslavneski flóttamaðurinn Dzonic Osman í samtali við Morgunblaðið á þessum degi árið 1959. Upp úr dúrnum kom að hann var múslimi og líklega sá eini á landinu um þær mundir, að því er hann taldi sjálfur, og spurði blaðamaður þá hvernig hann bæðist fyrir á Íslandi.

Í spjallinu kom einnig fram að foreldrar Osmans hefðu viljað að hann yrði prestur og settu hann á prestaskóla, „en ég var ekki spámannlega vaxinn – frekar en Stalín sem líka var settur í prestnám – og strauk úr skóla, þegar ég fór að hafa vit fyrir mér sjálfur. Ég kunni miklu betur við hermennskuna í þá daga.“

Dzonic Osman og eiginkona hans, Slavica, létu vel af dvölinni á Íslandi. „Maður þarf ekki að óttast, að það sé lögreglan, sem bankar á dyrnar hjá manni á morgnana.“ Bæði unnu þau á Álafossi og líkaði vel. „Þið vitið bara ekki hvað þið eruð heppnir Íslendingar,“ sögðu hjónin.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert