Sendifulltrúi RKÍ til hjálparstarfa á Bahamas

Eyðileggingin var mikil á Bahama-eyjum eftir að Dorian gekk þar …
Eyðileggingin var mikil á Bahama-eyjum eftir að Dorian gekk þar yfir í septembermánuði. AFP

Ívar Schram, sérfræðingur á alþjóðasviði Rauða krossins á Íslandi, hélt í dag til hjálparstarfa sem sendifulltrúi á Bahamas í kjölfar fellibylsins Dorian sem gekk fyrir eyjarnar í byrjun september og olli gríðarlegri eyðileggingu. Áætlað er að Ívar sinni hjálparstarfi á eyjunum í einn mánuð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum.

Helstu verkefni Rauða krossins á Bahamas er að aðstoða þolendur veðurofsans með því að koma upp bráðabirgðahúsnæði, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, vernd, tryggja matvælaöryggi og uppbyggingu í kjölfar hamfaranna. Rauði krossinn gaf út neyðarbeiðni í kjölfar hamfaranna upp á 17,3 milljónir svissneska, jafnvirði nærri 2,2 milljarða íslenska króna, til þess að aðstoða um 7.000 fjölskyldur á eyjunum.

Ívar Schram hefur starfað með Rauða krossinum í tæpan áratug. …
Ívar Schram hefur starfað með Rauða krossinum í tæpan áratug. Fyrst sem sjálfboðaliði, síðar sem starfsmaður Reykjavíkurdeildar Rauða krossins og síðustu ár sem sérfræðingur í neyðarvörnum og alþjóðlegu hjálparstarfi. Ljósmynd/Rauði krossin

„Ívar kemur til með aðstoða Rauða krossinn á Bahamas í að tryggja að hjálparstarf Rauða krossins sé í samræmi við þarfir þolenda og að það sé tryggt að þolendur og viðtakendur hjálpargagna og hjálparstarfsins séu hafðir með í ráðum þegar kemur að dreifingu hjálpargagna, aðgengi að þjónustu og í uppbyggingu í kjölfar hamfaranna,“ segir í tilkynningu frá Rauða krossinum.

Býst við krefjandi verkefnum

Dorian olli miklu tjóni er hann gekk yfir eyjarnar.
Dorian olli miklu tjóni er hann gekk yfir eyjarnar. AFP

Ívar hefur starfað með Rauða krossinum í tæpan áratug. Fyrst sem sjálfboðaliði, síðar sem starfsmaður Reykjavíkurdeildar Rauða krossins og síðustu ár sem sérfræðingur í neyðarvörnum og alþjóðlegu hjálparstarfi. Ívar er jafnframt viðurkenndur leiðbeinandi í samfélagslegri nálgun og áreiðanleika sem verður jafnframt meginverkefni hans á Bahamas.

Hann segist spenntur fyrir þeim verkefnum sem bíða hans á Bahamas, en býst einnig við því að þau verði mjög krefjandi.

„Ég er hins vegar mjög vel undirbúinn og fengið mjög góða þjálfun hjá Rauða krossinum og er spenntur að taka þátt í lífsbjargandi hjálparstarfi. Sérstaða Rauða krossins nýtist vel í þessum verkefnum sem og öðrum því það eru sjálfboðaliðar sem bera hjálparstarfið uppi, ég verð þarna til að aðstoða við skipulagningu og þeim til halds og trausts. Í því liggur styrkur Rauða krossins að við vorum þarna áður en hamfarirnar dundu yfir, verðum þarna á meðan verið er að koma hlutum í samt horf og verðum þarna þegar uppbygging hefst og þegar henni lýkur,“ er haft eftir Ívari í tilkynningu Rauða krossins.

Hann þakkar Mannvinum Rauða krossins stuðninginn og segist vona til þess að fleiri sláist í þann stækkandi hóp, en Mannvinir eru þeir sem styrkja Rauða krossinn með reglubundnum framlögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert