Verði heimilt að koma fram undir fölsku nafni

Sex opinberum eftirlitsaðilum hér á landi verður veitt heimild til þess að gefa upp falskt nafn og auðkenni við kaup á vörum og þjónustu til þess að koma upp um möguleg lögbrot nái frumvarp stjórnvalda um breytingar á ýmsum lögum vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) fram að ganga.

Heimildir eftirlitsaðilanna sex, Ferðamálastofu, Fjármálaeftirlitsins, fjölmiðlanefndar, Lyfjastofnunar, Neytendastofu og Samgöngustofu, yrðu efnislega hliðstæðar en þannig segir til að mynda um Fjármálaeftirlitið að því verði heimilt að kaupa „vörur og þjónustu, undir fölsku nafni og auðkenni, til að koma upp um brot gegn lögum þessum og afla upplýsinga og gagna sem nauðsynleg þykja við athugun einstakra mála.“

Þá segir í frumvarpinu að eftirlitsaðilarnir geti krafist endurgreiðslu vegna kaupanna nema það hafi í för með sér verulegt óhagræði fyrir seljendur viðkomandi vöru eða þjónustu. Fram kemur í greinargerð að hægt verði að beita umræddum ákvæðum ef nauðsyn krefji með það fyrir augum að prufukeyra vöruna eða þjónustuna.

Geti komið fram sem neytandi á sannfærandi hátt

Með fölsku nafni er átt við annað nafn en nafn við komandi eftirlitsaðila að því er segir í greinargerðinni. Með fölsku auðkenni sé átt við önnur auðkenni en nafn sem gefin eru upp við kaupin, til dæmis netfang. Ekki sé þannig nauðsynlegt að nafn eða auðkenni sé falskt sem slíkt heldur nægir að það sé annað en eftirlitsaðilans.

Þannig geti til dæmis Neytendastofa falið starfsmönnum sínum að kaupa vörur eða þjónustu í þeirra eigin nafni. „Tilgangurinn með beitingu heimildarinnar er að Neytendastofa geti á sannfærandi hátt komið fram gagnvart seljanda sem almennur neytandi án þess að seljandi átti sig á því,“ segir enn fremur í greinargerðinni.

„Heimildin getur verið mikilvæg til þess að koma upp um brot gegn ákvæðum laga á sviði neytendaverndar. Sem dæmi má nefna hvort vara eða þjónusta standist upplýsingar sem fram koma við markaðssetningu, hvort um sé að ræða ósanngjarna samningsskilmála eða brot á rétti neytenda til að falla frá samningi,“ segir áfram.

Einnig kemur fram í greinargerðinni með frumvarpinu að heimildin geri eftirlitsaðilunum mögulegt að skoða, athuga, rannsaka, hluta sundur eða prófa vörur eða þjónustu. Þegar komi að kröfu um endurgreiðslu skuli tekið tillit til aðstæða og eðlis vörunnar eða þjónustunnar. Til dæmis hvort unnt verði að selja vöruna með afslætti.

Þá er gert ráð fyrir að Neytendastofa tilkynni aðila máls svo fljótt sem unnt er um að gagnaöflun hafi farið fram undir fölsku nafni eða auðkenni.

mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert