Vildi ekki gefa lögreglunni upp nafn sitt

mbl.is/Eggert

Karlmaður var handtekinn á skemmtistað í miðbæ Reykavíkur á fjórða tímanum í nótt grunaður um að hafa kastað glasi í höfuð annars manns.

Maðurinn kvaðst hafa tekið nokkur ár í lögfræði og neitaði að segja til nafns þegar lögreglumenn, sem komu á staðinn, fóru fram á það. Hélt maðurinn því fram að honum bæri engin skylda til þess. Hann var í kjölfarið færður í fangaklefa.

Nóttin var annars óvenju róleg samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en til marks um það er eini einstaklingurinn sem gistir fangaklefa eftir hana sá sem taldi sig ekki þurfa að gera grein fyrir sér.

Lögreglan hafði nokkuð afskipti af ökumönnum sem voru annað hvort undir áhrifum áfengis eða fíkniefna eða hvoru tveggja. Tilkynnt var um umferðaóhapp í Breiðholti í gærkvöldi um sjöleytið vegna ísingar. Ekki urðu alvarleg slys á fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka