Segir handritin eigi heima í Danmörku

Úr handritasafni Árna Magnússonar.
Úr handritasafni Árna Magnússonar. Ómar Óskarsson

Þau 700 handrit úr handritasafni Árna Magnússonar sem varðveitt eru af Kaupmannahafnarháskóla eiga að vera þar áfram. Þau eru hluti af dönskum menningararfi og eiga að vera áfram í Danmörku. Þetta segir Anne Mette Hansen, lektor við stofnun norrænna fræða og tungumála við Kaupmannahafnarháskóla. 

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra skoðar handrit í Árnastofnun undir leiðsögn Guðrúnar …
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra skoðar handrit í Árnastofnun undir leiðsögn Guðrúnar Nordal, forstöðumanns Árnastofnunar. Kristinn Magnússon

„Þau eru hluti af sögu okkar. Þarna er fjallað um danska konunga frá Haraldi blátönn til Knúts konungs VI,“ segir Anne Mette í samtali við danska dagblaðið BT, en RÚV greindi einnig frá málinu. 

„Þetta er íslensk útgáfa af sögunum, en hefur að sjálfsögðu mikla þýðingu, svipað og Jelling-steinninn segir frá Haraldi blátönn,“ segir Anne Mette og vísar þar til rúnasteins sem reist­ur var af Har­aldi blátönn árið 965 í bænum Jelling á Jótlandi.

Handritin eru hluti af dönskum menningararfi og eiga að vera …
Handritin eru hluti af dönskum menningararfi og eiga að vera áfram í Danmörku. Þetta segir Anne Mette Hansen, lektor við stofnun norrænna fræða og tungumála við Kaupmannahafnarháskóla. Sverrir Vilhelmsson

Hún segir að ekki liggi ljóst fyrir hvaða handrit Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra vilji fá til Íslands. Kaupmannahafnarháskóla hafi ekki verið skýrt frá því. Hún segir að vel gæti farið svo að Danir muni lána Íslendingum handrit þegar Hús íslenskra fræða hefur verið tekið í notkun, en það mun hýsa Árnastofnun. „Það gæti þá vel verið viðeigandi að Kaupmannahafnarháskóli láni íslensk handrit — ekki öll — til stofnunarinnar,“ segir Anne Mette í samtali við BT.

Á vefsíðu BT eru lesendur spurðir hvort Danir eigi að afhenda Íslendingum handritin. Klukkan rúmlega níu í morgun voru 75% þeirrar skoðunar að handritin ættu að vera áfram í Danmörku. 17% töldu að senda ætti þau til Íslands og 8% höfðu ekki skoðun á því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert