50 titlar á 3 árum

Auður Ava Ólafsdóttir er einn þekktasti og virtasti rithöfundur Íslands.
Auður Ava Ólafsdóttir er einn þekktasti og virtasti rithöfundur Íslands.

Þessi misserin er mest þýtt af íslenskum bókum á frönsku eða um fimmtíu titlar á þremur árum. Höfundar frá Íslandi eru tíðir gestir á bókmenntaviðburðum víða um Frakkland en í síðustu viku var Auður Ava Ólafsdóttir sæmd frönsku bók­mennta­verðlaunum Mé­dic­is étran­ger fyr­ir skáld­sögu sína Ung­frú Ísland sem kom út í franskri þýðingu Érics Boury.

„Eitt af hlutverkum Miðstöðvar íslenskra bókmennta er að kynna íslenskar bókmenntir erlendis og auka útbreiðslu þeirra. Það starf hefur borið góðan árangur eins og meðal annars má sjá á miklum áhuga á íslenskum bókmenntum í Frakklandi. Mest er þýtt úr íslensku á frönsku þessi misserin en bækurnar eru orðnar um fimmtíu talsins á þriggja ára tímabili og þar gegna þýðingastyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta mikilvægu hlutverki. Sem dæmi má nefna þá eru allflestar bækur Arnalds Indriðasonar og Auðar Övu Ólafsdóttur til í franskri þýðingu en þau eiga sér dyggan lesendahóp. Fjöldi annarra höfunda hefur náð athygli Frakka og margir koma reglulega fram á bókmenntahátíðum og öðrum viðburðum í Frakklandi — iðulega með aðkomu Miðstöðvar íslenskra bókmennta,“ segir á vef Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

Tveir franskir þýðendur hafa hlotið Orðstír, heiðursverðlaun þýðenda íslenskra bókmennta á erlendar tungur, þau Catherine Eyjólfsson árið 2015 og Eric Boury árið 2017. Þau hafa hvort um sig þýtt um 50 íslensk verk á frönsku. 

Í haust blés sendiráð Íslands í París til þýðendaþings með þátttöku þýðenda, rithöfunda og franskra útgefenda. Eitt af markmiðum með þinginu var að vekja áhuga á þýðendastarfinu og íslenskunámi en í Frakklandi er íslenska kennd við tvo háskóla.

Dagskráin var unnin í samvinnu við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Miðstöð íslenskra bókmennta og meðal þátttakenda voru Hrafnhildur Hagalín, Pétur Gunnarsson og Steinunn Sigurðardóttir auk þýðendanna Catherine Eyjólfsson, Éric Boury og Jean-Christophe Salaün.  

Sjá nánar hér

Hátt í fimmtíu þýðingar úr íslensku eru nýlega komnar út eða væntanlegar í Frakklandi og þar kennir margra grasa; það eru skáldverk, glæpasögur, barna- og ungmennabækur, myndasögur, ljóð og bækur almenns efnis. Hér eru nokkur dæmi um nýlegar og væntanlegar franskar þýðingar:

  • Sextíu kíló af sólskini eftir Hallgrím Helgason, útgefandi Gallimard.
  • Stormfuglar eftir Einar Kárason í útgáfu Grasset.
  • Hið heilaga orð og Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur í þýðingu Eric Boury, útgefandi Gaïa Editions.
  • Hans Blær og Gæska eftir Eirík Örn Norðdahl í útgáfu Editions Métailié.
  • Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur, útgefandi er Les Editions Noir sur Blanc.
  • Stúlkan hjá brúnni, Myrkrið veit, Synir duftsins, Dauðarósir og Petsamo eftir Arnald Indriðason í þýðingu Eric Boury, útgefandi er Editions Métailié.
  • Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson í útgáfu Editions Zulma.
  • Saga Ástu (útg. Grasset), Himnaríki og helvíti (útg. An Alarc'h), Eitthvað á stærð við alheiminn (útg. Gallimard) og Fiskarnir hafa enga fætur (útg. Gallimard) eftir Jón Kalman Stefánsson í þýðingu Eric Boury.
  • Landslag er aldrei asnalegt eftir Bergsvein Birgisson, útg. Actes sud.
  • Andköf, Rof og Dimma eftir Ragnar Jónasson, útg. Martiniére
  • Sæmd eftir Guðmund Andra Thorsson í þýðngu Eric Boury og í útgáfu Gallimard.
  • Þrír sneru aftur eftir Guðberg Bergsson, þýðandi Eric Boury og útgefandi Editions Métailié.

  • Passamyndir og Íslenskir kóngar eftir Einar Má Guðmundsson í þýðingu Eric Boury, útgefandi Editions Zulma.
  • Óláfs saga ins helga, þýðandi er François-Xavier Dillmann og útgefandi Editions Gallimard.
  • Gombri eftir Elínu Eddu í þýðingu Anne Balanant, útgefandi er Mécanique générale.
  • Alli Nalli og tunglið eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur og Sigríði Björnsdóttur, þýðandi Jean-Christophe Salaün og útgefandi Albin Michel Jeunesse.
  • Vetrarfrí og Vetrarhörkur eftir Hildi Knútsdóttur í þýðingu Jean-Christophe Salaün, útg. Editions Thierry Magnier.
  • Sölvasaga unglings eftir Arnar Má Arngrímsson í þýðingu Jean-Christophe Salaün, útgefandi er Editions Thierry Magnier.
  • Fjallið sem yppti öxlum eftir Gísla Pálsson, þýðandi er Carine Chichereau og útgefandi Gaïa Editions.
  • Svik, Búrið og Netið eftir Lilju Sigurðardóttur í þýðingu Jean-Christophe Salaün, útgefandi Editions Métailié. 
  • Heima og Ástin og lífið .. og fleiri ljóð eftir Þór Stefánsson, þýðandi er Nicole Barrière og útgefandi L´Harmattan.
  • Síðasta ástarjátningin eftir Dag Hjartarson í þýðingu Jean-Christophe Salaün og útgefandi er Éditions La Peuplade.
  • Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur í þýðingu Eric Boury, útgefandi Editions Zulma.
  • Sandárbókin eftir Gyrði Elíasson, þýðandi er Catherine Eyjólfsson og útgefandi Éditions La Peuplade.
  • 13 dagar eftir Árna Þórarinsson, þýðandi er Eric Boury og útgefandi Editions Métailié.
  • Bréf frá Bútan og Fundur Útvarpsráðs þann 14. mars 1984 og mótandi áhrif hans á kynverund drengsins og fleiri sögur eftir Ragnar Helga Ólafsson í þýðingu Jean-Christophe Salaün og útgáfu Editions Passage(s).
  • Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur, þýðandi er Catherine Eyjólfsson og útgefandi Editions Zulma.
  • gráspörvar og ígulker eftir Sjón í þýðingu Séverine Daucourt Fridriksson og útgáfu Editions LansKine.
  • Reisubók Guðríðar Símonardóttur eftir Steinunni Jóhannesdóttur í þýðingu Eric Boury og útgáfu Gaïa Editions.
  • Sögumaður eftir Braga Ólafsson í þýðingu Robert Guillemette og útgáfu Actes sud.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert