Þessi misserin er mest þýtt af íslenskum bókum á frönsku eða um fimmtíu titlar á þremur árum. Höfundar frá Íslandi eru tíðir gestir á bókmenntaviðburðum víða um Frakkland en í síðustu viku var Auður Ava Ólafsdóttir sæmd frönsku bókmenntaverðlaunum Médicis étranger fyrir skáldsögu sína Ungfrú Ísland sem kom út í franskri þýðingu Érics Boury.
„Eitt af hlutverkum Miðstöðvar íslenskra bókmennta er að kynna íslenskar bókmenntir erlendis og auka útbreiðslu þeirra. Það starf hefur borið góðan árangur eins og meðal annars má sjá á miklum áhuga á íslenskum bókmenntum í Frakklandi. Mest er þýtt úr íslensku á frönsku þessi misserin en bækurnar eru orðnar um fimmtíu talsins á þriggja ára tímabili og þar gegna þýðingastyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta mikilvægu hlutverki. Sem dæmi má nefna þá eru allflestar bækur Arnalds Indriðasonar og Auðar Övu Ólafsdóttur til í franskri þýðingu en þau eiga sér dyggan lesendahóp. Fjöldi annarra höfunda hefur náð athygli Frakka og margir koma reglulega fram á bókmenntahátíðum og öðrum viðburðum í Frakklandi — iðulega með aðkomu Miðstöðvar íslenskra bókmennta,“ segir á vef Miðstöðvar íslenskra bókmennta.
Tveir franskir þýðendur hafa hlotið Orðstír, heiðursverðlaun þýðenda íslenskra bókmennta á erlendar tungur, þau Catherine Eyjólfsson árið 2015 og Eric Boury árið 2017. Þau hafa hvort um sig þýtt um 50 íslensk verk á frönsku.
Í haust blés sendiráð Íslands í París til þýðendaþings með þátttöku þýðenda, rithöfunda og franskra útgefenda. Eitt af markmiðum með þinginu var að vekja áhuga á þýðendastarfinu og íslenskunámi en í Frakklandi er íslenska kennd við tvo háskóla.
Dagskráin var unnin í samvinnu við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Miðstöð íslenskra bókmennta og meðal þátttakenda voru Hrafnhildur Hagalín, Pétur Gunnarsson og Steinunn Sigurðardóttir auk þýðendanna Catherine Eyjólfsson, Éric Boury og Jean-Christophe Salaün.
Hátt í fimmtíu þýðingar úr íslensku eru nýlega komnar út eða væntanlegar í Frakklandi og þar kennir margra grasa; það eru skáldverk, glæpasögur, barna- og ungmennabækur, myndasögur, ljóð og bækur almenns efnis. Hér eru nokkur dæmi um nýlegar og væntanlegar franskar þýðingar:
Þrír sneru aftur eftir Guðberg Bergsson, þýðandi Eric Boury og útgefandi Editions Métailié.