Segir fullyrðingar Sjúkratrygginga ekki standast skoðun

Félag sjúkraþjálfara undrast harðort bréf forstjóra Sjúkratrygginga Íslands.
Félag sjúkraþjálfara undrast harðort bréf forstjóra Sjúkratrygginga Íslands.

„Viðbrögð okkar eru fyrst og fremst undrun á nánast öllu því sem kemur fram í þessu bréfi,“ segir Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara, um harðorð bréf sem María Heim­is­dótt­ir, for­stjóri Sjúkra­trygg­inga Íslands (SÍ), sendi henni.

Í bréfinu lýsir SÍ fullri ábyrgð á hend­ur sjúkraþjálf­ur­um ætli þeir ekki að virða gild­andi ákvæði ramma­samn­ings. Eru sjúkraþjálf­ar­ar einnig sagðir verða dregn­ir til ábyrgðar fyrir að kjósa að hundsa ákvæði samn­ings­ félagsins við SÍ um upp­sagn­ar­frest og verð fyr­ir þjón­ustu. 

Fram hef­ur komið á mbl.is, að sam­skipti sjúkraþjálf­ara og SÍ séu í upp­námi eft­ir að stofn­un­in til­kynnti á föstu­dag að sjúkraþjálf­ar­ar væru bundn­ir af ákvæðum ramma­samn­ings næstu sex mánuði — þrátt fyr­ir að samn­ing­ur­inn hefði runnið út 31. janú­ar síðastliðinn.

„Það er alveg kristaltært í okkar huga að samningurinn er útrunninn. Hann rann út 31. janúar sl. og að halda því fram að það þurfi að segja upp útrunnum samningi með sex mánaða fyrirvara stenst enga skoðun,“ segir Unnur. 

Stendur ekki steinn yfir steini

Hún kveðst líka varla eiga orð til að lýsa því hvernig skotið sé yfir markið með þeim ávirðingum sem dembt er yfir félagsmenn. Sú ásökunin sem einna hæst hefur farið snýst um að félagið hafi gefið út verðskrá og því sé búið að senda  kvörtun til samkeppniseftirlitsins. „Þetta er bara eins rangt og það getur verið. Það hefur  aldrei verið sendur út nokkur skapaður hlutur til félagsmanna um gjaldskrá og það stendur í raun ekki steinn yfir steini í þessu bréfi,“ segir Unnur.

Unnur bendir á að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem sjúkraþjálfarar grípi til þess ráðs að starfa ekki eftir samningi við Sjúkratryggingar Íslands, því slíkt hafi líka verið gert árið 2002 og 2014. „Þetta er einn af þeim nauðkostum sem þær starfstéttir hafa sem eru sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn,“ segir hún.

„Hyskjast við að endurgreiða fólki“

Þegar komið hafi í ljós í haust að SÍ ætlaði ekki að endurnýja samning stofnunarinnar við sjúkraþjálfara líkt og félagið taldi sig vera að bíða eftir að gerðist heldur fara í opið útboð, segir Unnur tvær grímur hafa runnið á félagsmenn. Í kjölfarið hafi verið ákveðið á fjölmennum félagsfundi í september að kanna hvaða línu félagið ætti að taka.

„Þar var ákveðið að kanna annars vegar með að lengja í útboðsfrestinum og hins vegar að breyta forsendum útboðsins, sem sjúkraþjálfarar telja óásættanlegar,“ segir hún. Það hafi þó alveg verið inni í myndinni að hætta að starfa eftir samningnum við SÍ tækju stjórnvöld ekki tillit til ábendinga sjúkraþjálfara og Sjúkratryggingum hafi átt að vera ljóst að það gæti gerst.

Unnur segir miður að skjólstæðingar sjúkraþjálfara verði fyrir einhverjum óþægindum vegna þessa og kveðst hafa heyrt af að það sé sérstaklega að gerast vegna þess að Sjúkratryggingar séu „að hyskjast við að endurgreiða fólki“.

„Deilan snýst þó hvorki um endurgreiðslu dagsins í dag né gjaldskrár. Stóra málið er hvernig ætlum við að haga innkaupum á heilbrigðisþjónustu og hvernig ætlum við að standa vörð um gæði þjónustunnar í útboði þar sem eingöngu er keppt um verð eins og í meðalmalbikunarframkvæmdum?“ segir Unnur og kveður sjúkraþjálfara hafa miklar áhyggjur af útboðsleiðinni sem þeir telji óheppilega fyrir heilbrigðisþjónustu.

Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara. Hún segir rangt að félagið …
Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara. Hún segir rangt að félagið hafi gefið út verðskrá fyrir félagsmenn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka