Framkvæmdir Faxaflóahafna sf. við landgerð austan Laugarness ganga það vel að útlit er fyrir að þeim ljúki talsvert á undan áætlun.
Þetta kemur fram í svari Jóns Þorvaldssonar aðstoðarhafnarstjóra, sem lagt var fram á síðasta fundi borgarráðs. Jón var hér að svara fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, um landfyllingu Laugarness sem teygir sig út í Skarfaklett. Hér á reyndar að segja út í Skarfasker.
Landfyllingin sem um ræðir verður rúmir tveir hektarar að sjóvarnargörðum meðtöldum. Reiknað er með því að í hana þurfi alls 375 þúsund rúmmetra af fyllingarefni, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Að frumkvæði Nýs Landspítala verður uppistaðan í landgerðinni efni sem sprengt er í grunni nýja Landsspítalans. Með því mátti koma í veg fyrir flutninga með grjótið langar leiðir út fyrir borgarmörkin. Áætlað var að þetta efni yrði um 200 þúsund rúmmetrar.