Sérstök þriggja manna starfsstjórn Reykjalundar sem sett hefur verið á fót fyrir tilstilli heilbrigðisráðherra var kynnt fyrir starfsfólki þar í morgun. Stefán Yngvason endurhæfingarlæknir verður formaður starfsstjórnarinnar en aðrir stjórnarmenn eru Anna Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur og Óskar Jón Helgason sjúkraþjálfari.
Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að starfsstjórnin hafi fullt sjálfstæði og óskorað umboð til athafna við stjórnun stofnunarinnar meðan unnið verður að því að aðgreina rekstur endurhæfingarþjónustu Reykjalundar frá annarri starfsemi og eignum SÍBS.
Í liðinni viku fór stjórn SÍBS þess á leit við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að hún hlutaðist til um að koma á fót sérstakri starfsstjórn á Reykjalundi í ljósi þess vanda sem fjallað hefur verið um opinberlega að undanförnu.
Í tilkynningunni er haft eftir Svandísi að öllum megi vera ljóst að Reykjalundur gegni afar stóru og þýðingarmiklu hlutverki í heilbrigðisþjónustu við landsmenn. „Þetta er lykilstofnun á sviði endurhæfingar þar sem býr mikill mannauður, þekking og djúp reynsla sem ekki má glatast. Með þetta í huga lagði ég áherslu á að finna fólk í starfsstjórnina sem nýtur traust[s] innan og utan Reykjalundar og er fært um að stíga inn í aðstæður og skapa sátt og vinnufrið á Reykjalundi. Þetta tel ég mikilvægt fyrsta skref og er sannfærð um að vel hafi tekist,“ er haft eftir heilbrigðisráðherra.