Endurræsingu þriðja kerskálans í álverinu í Straumsvík er lokið töluvert á undan áætlun en þegar hún hófst í september var rætt um að hún gæti tekið nokkra mánuði.
Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi, segir enduræsinguna hafa gengið vonum framar og hraðar en áætlað var.
Fram kom í ársuppgjöri Rio Tinto að vegna óhappsins myndi framleiðslan í Straumsvík dragast saman um 21 þúsund tonn í ár. Til samanburðar var framleiðslugetan áætluð 213 þúsund tonn í ár.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Bjarni Már álverið hafa afgreitt allar pantanir síðan óhappið kom upp. „Viðskiptavinir okkar hafa ekki fundið fyrir þessu og við höfum getað staðið við allar skuldbindingar gagnvart þeim.“