Tímabundið samkomulag hefur náðst milli Félags sjúkraþjálfara (FS) og Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) um að fela gerðardómi að úrskurða um lagalega óvissu um gildistíma rammasamnings sem var í gildi milli Félags sjúkraþjálfara og SÍ.
Samningurinn rann út 31. janúar á þessu ári en SÍ tilkynnti sjúkraþjálfurum 8. nóvember að stofnunin teldi að þeir væru bundnir af ákvæðum rammasamningsins í sex mánuði til viðbótar.
Samkomulagið felur í sér að FS fellst á að starfað verði eftir samningnum á meðan málið er til meðferðar fyrir gerðardómi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Félag sjúkraþjálfara sendi frá sér fyrir skömmu.
Það þýðir að frá og með morgundeginum verði sjúkraþjálfarar aftur aðilar að tímabundnum samningi með „eðlilegum rafrænum samskiptum við SÍ.“
“Það er mikilvægt fyrir okkur sjúkraþjálfara að SÍ hefur fallist á að jafnhliða verða hafnar viðræður um innkaupaaðferðir og leiðir til að koma á samningum um þjónustu sjúkraþjálfara”, segir Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara.
Deilur milli Félags sjúkraþjálfara og Sjúkratrygginga Íslands hafa farið fram fyrir opnum tjöldum síðan FS lýsti því yfir að sjúkraþjálfarar myndu ekki sætta sig við að starfa áfram eftir samningi sem hefur ekki verið leiðréttur síðan gildistími hans rann út. María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, sendi Unni Pétursdóttur, formanni Félags sjúkraþjálfara, harðort bréf í kjölfarið og sagði að sjúkraþjálfarar yrðu dregnir til ábyrgðar kysu þeir að hundsa ákvæði samningsins.