Samfylkingin skilar styrkjum til Namibíu

Aðspurður segir Logi að honum og fleirum innan fylkingarinnar þyki …
Aðspurður segir Logi að honum og fleirum innan fylkingarinnar þyki óþægilegt að flokkurinn hafi tekið við fé frá Samherja, í ljósi nýjustu frétta um fyrirtækið. mbl.is/​Hari

Samfylkingin hyggst skila þeim styrkjum sem flokkurinn hefur fengið frá Samherja. Ekki til fyrirtækisins þó heldur beint til Namibíu. Þetta staðfestir Logi Einarsson, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is.

Er það vegna ásakana á hendur Samherja sem settar voru fram í frétta­skýr­ingaþætt­in­um Kveik í gærkvöldi. Þar var hul­unni svipt af meint­um mútu­greiðslum Sam­herja sem hafi endað í vös­um ráðamanna í Namib­íu í skipt­um fyr­ir kvóta og al­menna vel­vild. 

„Við ætlum að taka þá styrkina og skila þeim til Namibíu. Við erum í sambandi við SOS barnaþorpin í Namibíu og munum þá hugsanlega láta féð renna til verst setta barnaþorpsins,“ segir Logi. Um er að ræða um það bil 1,6 milljónir króna. Vísir greindi fyrst frá. 

Hugsi yfir styrkjaöflun

„Ég held að þetta geti komið sér vel á fjölmörgum stöðum þar niður frá og er þar mun meiri þörf heldur en hjá Samherja,“ segir Logi. 

Aðspurður segir Logi að honum og fleirum innan fylkingarinnar þyki óþægilegt að flokkurinn hafi tekið við fé frá Samherja, í ljósi nýjustu frétta um fyrirtækið.

„Auðvitað hefur maður verið dálítið hugsi yfir því við hvaða aðstæður á að vera að safna styrkjum frá fyrirtækjum. Okkar hugsun síðustu ár hefur verið meira og meira í áttina að því að vera með sjálfaflað fé og auðvitað nýta það framlag sem við fáum frá hinu opinbera frekar heldur en að leita til lögaðila eftir stórum styrkjum. Ég held að þetta muni hafa áhrif á þá hugsun enn frekar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert