Skuttogarar hafa verið áberandi í veiðum á aflamarki Byggðastofnunar síðustu ár. Nokkuð hefur verið um að sterk útgerðarfyrirtæki veiði þennan kvóta, samkvæmt samningum við fyrirtæki í minni sjávarplássum til að halda uppi vinnslu þar allan ársins hring og auka hagkvæmni.
Byggðastofnun fylgist með að úthlutað aflamark skili sér til vinnslu og að útgerð sem fengið hefur úthlutun leigi kvótann ekki frá sér, en dæmi munu vera um að samningum hafi verið sagt upp vegna brota á þessu, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða eru 5,3% af heildarafla í hverri fisktegund dregin af leyfilegum heildarafla og varið til ýmissa ráðstafana, m.a. til þess að auka byggðafestu. Nefna má aflamark Byggðastofnunar, strandveiðar, byggðakvóta, línuívilnun, rækju- og skelbætur og frístundaveiðar. Aflamark Byggðastofnunar fiskveiðiárið 2018/2019 nam alls 4.880 þorskígildistonnum og á þessu fiskveiðiári eru heimildirnar 5.150 þorskígildistonn.
Við val á byggðarlögum sem koma til álita við úthlutun á aflamarki Byggðastofnunar skal m.a. byggja á því að byggðarlagið sé í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Íbúar byggðarlags séu færri en 400 og hafi fækkað síðastliðin 10 ár. Við úthlutun eru gerðir samningar um nýtingu við fiskiskip og vinnslu.