Smári McCarthy, þingmaður Pírata, segir ljóst að Ísland muni þurfa að þola álitshnekki vegna meintra lögbrota Samherja. Ríkisstjórnin beri ábyrgð á því að spilling eigi sér ekki stað og ef ásakanir á hendur Samherja reynist réttar sýni það að íslenskt eftirlit og löggjöf séu ekki nógu sterk. Smári segir sömuleiðis að það sé „ákveðið vandamál“ að Kristján Þór Júlíusson hafi tekið við embætti sjávarútvegsráðherra, vegna tengsla Kristjáns við Samherja.
Í fréttaskýringaþættinum Kveik sem sýndur var í gærkvöldi var hulunni svipt af meintum mútugreiðslum Samherja sem hafi endað í vösum ráðamanna í Namibíu í skiptum fyrir kvóta og almenna velvild.
„Miðað við gögnin sem voru birt í gær þá er mjög augljóst að það var eitthvað mjög mikið í ólagi í gangi, glæpsamlegt athæfi. Þetta hefur víðast hvar í heiminum verið kallað skipulögð glæpastarfsemi og alveg eðlilegt að við köllum það það líka hérlendis. Það þarf að taka hart á þessu en það hefur verið ákveðin kerfisbundin linkind gagnvart spillingu á Íslandi,“ segir Smári.
„Þarna er eitt fyrirtæki í þágu eigin gróða að gera hluti sem munu valda Íslandi gríðarlegum álitshnekkjum og eiginlega tefla allri þróunarsamvinnu landsins í stórhættu.“
Smári hefur kallað eftir sérstakri umræðu á Alþingi um spillingu almennt. Sú umræða verður á morgun.
„Við ætlum að tala um nýlega ákvörðun FATF um að Ísland væri sett á gráan lista, skattaskjól og eignarhaldsfelustaði og um ábyrgð stjórnvalda en líka orðspor Íslands í þessu samhengi.“
Smári segir mikilvægt að nýta þau úrræði sem standa til boða. „Það eru til úrræði, það er til alþjóðasamningur um að það sé ólöglegt að múta opinberum starfsmönnum í öðrum löndum, þetta var beinlínis búið til vegna þess að vestræn ríki voru að arðræðna Afríku. Nú er Ísland, eða það er að segja þetta íslenska fyrirtæki, að gera nákvæmlega þetta og að sjálfsögðu á að beita þeim úrræðum sem þarna eru til staðar.“
Um ábyrgð ríkisstjórnarinnar í málinu segir Smári:
„Ríkisstjórnin ber sömu ábyrgð og allar ríkisstjórnir allra landa heims bera. Það er þeirra hlutverk að tryggja að svona spilling geti ekki átt sér stað. Það að þetta skuli hafa átt sér stað sýnir að við erum ekki með nógu góða löggjöf, við erum ekki með nógu gott eftirlit og það er orðið miklu meira en tímabært að fara að taka á því.“
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra var áður stjórnarformaður Samherja og starfaði hjá fyrirtækinu í þinghléum. Smári setur spurningarmerki við hæfi hans vegna tengslanna.
„Tengsl sjávarútvegsráðherra við Samherja eru alltaf mjög erfið. Hann hlýtur að sjá það hjá sjálfum sér að hann er vanhæfur til þess að taka ákvarðanir um þau mál sem snúa að þessu fyrirtæki. Það hefur legið fyrir síðan hann varð sjávarútvegsráðherra. Það að hann hafi tekið að sér þetta hlutverk í ljósi þess er ákveðið vandamál.“
Í þætti Kveiks var sagt að Kristján hefði mætt á fund Samherja og ráðamanna í Namibíu. „Hvers vegna hann var þar vitum við ekki og þangað til að við sjáum eitthvað meira þá er ekki ástæða til þess að segja neitt meira um það. Við förum ekki að krossfesta fólk fyrir að hafa mætt á einn fund,“ segir Smári.
Kristján hefur nú gefið út að hann ætli að segja sig frá málefnum Samherja ef þau komi á hans borð, að því er fram kemur í frétt á Vísi.
Í samhengi við mál Samherja og þá staðreynd að Ísland hafi verið sett á gráan lista FATF, alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, segir Smári mikilvægt að fjárfestingarleið Seðlabankans sé skoðuð.
„Við erum að óska eftir því að það verði gerð rannsókn á því hvernig hún var notuð í tengslum við skipulagða glæpastarfsemi. Við höfum einhverjar tölur, margar milljónir evra sem voru færðar á milli og margar ósvaraðar spurningar hvað það varðar.“