Illdeilur og uppsagnir hjá Íslandspósti á Selfossi

Kona á þrítugsaldri segir að henni hafi verið sagt upp …
Kona á þrítugsaldri segir að henni hafi verið sagt upp hjá Íslandspósti í gær, í kjölfar þess að hún ræddi við yfirmenn hjá fyrirtækinu um einelti í sinn garð. Forstjórinn segir fjarri sannleikanum að það sé ástæða uppsagnarinnar. mbl.is/Hari

Starfsstöð Íslandspósts á Selfossi hefur „logað í illdeilum“ um lengri tíma og að undanförnu hefur fjórum starfsmönnum af þeim rúmlega tuttugu sem þar starfa, meðal annars stöðvarstjóranum, verið sagt upp til þess að koma starfsemi vinnustaðarins í samt horf, að sögn Birgis Jónssonar, forstjóra Íslandspósts.

Kona á þrítugsaldri segir að henni hafi verið sagt upp í gær, í kjölfar þess að hún ræddi við yfirmenn hjá fyrirtækinu um einelti í sinn garð. Forstjórinn segir fjarri sannleikanum að það sé ástæða uppsagnarinnar.

Hildur Ýr Tryggvadóttir hefur verið starfsmaður Íslandspósts á Selfossi í nokkur ár og starfað bæði sem bílstjóri og í ræstingum. Hún greindi frá því á samfélagsmiðlum að hún hefði á mánudag átt fund með yfirmanni og starfsmannastjóra Íslandspósts vegna eineltis í hennar garð og síðan fengið uppsagnarbréf í gær.

Í samtali við mbl.is segir hún að eineltið hafi staðið yfir í lengri tíma inni á vinnustaðnum og fleiri en einn samstarfsmaður hennar hafi tekið þátt í því, þá sérstaklega hennar næsti yfirmaður þar innanhúss.

Hún segist hafa liðið mismunun af hennar hálfu, auk þess sem hún hafi staðið hana að því að baktala sig. Þá hafi þessi næsti yfirmaður hennar í vinnunni ekki svarað henni er hún reyndi að eiga við hana samtöl. „Svo taka þessir menn úr Reykjavík á málunum svona,“ segir Hildur.

Gríðarlega erfitt ástand í að minnsta kosti tvö ár

Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, segir að ástandið á Selfossi hafi verið gríðarlega erfitt í að minnsta kosti tvö ár og hafi að undanförnu farið „gjörsamlega úr böndunum“. Hann segir frásögn Hildar af uppsögninni ekki draga upp rétta mynd af málinu, sem sé margbrotnara en hún lýsi. Annar starfsmaður hafi til dæmis kvartað undan einelti af hennar hálfu.

Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, segir að ástandið á starfsstöðinni á …
Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, segir að ástandið á starfsstöðinni á Selfossi hafi verið komið gjörsamlega úr böndunum vegna illdeilna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég neita því algjörlega að henni hafi verið sagt upp í kjölfarið á því að hún hafi kvartað undan einelti. Þetta á sér miklu, miklu lengri sögu,“ segir Birgir – og segir svo frá:

„Það hefur allt logað í illdeilum og eineltisásakanir ganga á víxl á milli flokka, eins konar liðsskipunar sem hefur átt sér stað þarna. Við höfum verið að senda inn vinnustaðasálfræðinga, bæði utanaðkomandi og úr okkar mannauðsteymi með alls konar þjálfanir og viðtöl og aðgerðir og breytingar en svo endar þetta með því að ástandið á staðnum var bara gjörsamlega farið úr böndunum,“ segir Birgir og bætir við að starfsmenn hafi verið byrjaðir að skila inn veikindavottorðum vegna kvíða og eineltisásakanir hafi gengið á víxl á milli fólks. Starfsstöðin hafi verið óvinnufær.

„Það er náttúrulega búið að gjaldfella þetta hugtak einelti algjörlega, en eftir allt þetta ferli og þessa skoðun og ráðgjöf var niðurstaðan sú að gera ákveðnar breytingar á starfsmannahópnum. Við þurfum að tryggja það að starfsumhverfi fólks sé eðlilegt og heilsusamlegt, við getum ekki verið með fólk sem er að skila inn vottorðum vegna álags og kvíða út af starfsmannamálum,“ segir Birgir.

Hann segir að fljótlega verði auglýst eftir nýjum stöðvarstjóra fyrir starfsstöð Íslandspósts á Selfossi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert