„Við fögnum að sjálfsögðu lækkunum fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði á Akranesi, í Vestmannaeyjum, Kópavogi og Mosfellsbæ. Óbilgirni borgaryfirvalda í Reykjavík, sem halda fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði í lögleyfðu hámarki, er hins vegar með talsverðum ólíkindum.“
Þannig segir í frétt frá Félagi atvinnurekenda (FA) í gær. FA tók saman tillögur um fasteignaskatta á íbúðar- og atvinnuhúsnæði í frumvörpum til fjárhagsáætlana í tíu af stærstu sveitarfélögum landsins. Af tólf stærstu sveitarfélögunum áttu aðeins Árborg og Reykjanesbær eftir að leggja fram fjárhagsáætlun.
FA segir það vekja athygli „að Reykjavíkurborg, þar sem yfir helmingur af öllu verslunar- og skrifstofuhúsnæði landsins er staðsettur, sér enn eitt árið enga ástæðu til að lækka fasteignaskatta og innheimtir, eitt sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, hæsta lögleyfða fasteignaskatt af atvinnuhúsnæði, 1,65% af fasteignamati,“ að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.