Varðskipið Týr er væntanlegt í Súgandafjörð þar sem aðstæður verða skoðaðar og metið hvort hægt verði að ná bátnum Einari Guðnasyni ÍS af strandstað.
Mannbjörg varð þegar báturinn strandaði við Gölt á utanverðum Súgandafirði í gærkvöldi en neyðarkall barst frá bátnum um klukkan 22:00. Fjórir voru um borð.
Eins og áður hefur komið fram voru aðstæður erfiðar á vettvangi sökum brims. Þyrla Landhelgisgæslunnar kom á vettvang skömmu fyrir tólf á miðnætti og voru skipverjarnir allir komnir í þyrluna á miðnætti og fluttir til Ísafjarðar.
Varðskipið Týr er væntanlegt í Súgandafjörð milli klukkan 9 og 10 þar sem ætlunin er að reyna að bjarga bátnum.