Samþykkja uppbyggingu hótels í Þjórsárdal

Teikning af Fjallaböðunum fyrirhuguðu.
Teikning af Fjallaböðunum fyrirhuguðu.

Forsætisráðherra veitti í dag samþykki fyrir því að Skeiða- og Gnúpverjahreppur gangi til samninga við félagið Rauðakamb ehf. um uppbyggingu á 5 þúsund fermetra hóteli og baðaðstöðu í Þjórsárdal, en verkefnið gengur undir nafninu Fjallaböðin.

Ráðherra þurfti að veita samþykki sitt þar sem svæðið er innan þjóðlendu sem nefnist Búrfells- og Skeljafellssvæði.

Ætlunin er að hótelið rúmi 40-45 herbergi fyrir um 100 gesti og eiga mannvirki að falla á smekklegan hátt að landslagi. Þá segir á vef ráðuneytisins að umfang bygginga, húsagerð, form og litasamsetning verði í góðu samræmi við landslag og sérstöðu svæðisins.

Þá hefur ráðuneytið í samskiptum sínum við samningsaðila lagt áherslu á að leitast verði við að tryggja aðgengi almennings að þeirri aðstöðu sem boðið verður upp á á svæðinu og að verðlagning hennar verði eins sanngjörn og kostur er. Á það við um aðgengi að baðaðstöðu, veitingaþjónustu og gistiaðstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka