Vagnstjórar Strætó gætu átt von á sekt

Hádegismóar. Við þetta skýli þarf strætó að stoppa og er …
Hádegismóar. Við þetta skýli þarf strætó að stoppa og er það brot á lögum. Fyrir það má sekta vagnstjórann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er merkt hringtorg og þarna má nú finna strætóstoppistöð, en samkvæmt umferðarlögum er óheimilt að stöðva ökutæki á hringtorgi. Við höfum þegar komið okkar ábendingum á framfæri við Reykjavíkurborg og er boltinn hjá þeim.“

Þetta segir Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, og vísar í máli sínu til Hagatorgs í Vesturbæ Reykjavíkur. Greint var frá því í Morgunblaðinu í gær að breytt staðsetning á strætóskýli við Hagatorg veldur því að strætó þarf nú að stoppa á akstursleiðinni um torgið til að hleypa farþegum inn og út úr vagninum. Að stöðva ökutæki á hringtorgi er, samkvæmt umferðarlögum, ekki heimilt.

Árni segir lögreglu munu fylgjast með umferð á svæðinu í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi. Spurður hvort lögreglu sé heimilt að sekta vagnstjóra Strætó stöðvi þeir vagna sína við strætóskýlið kveður Árni já við.

„Við munum fylgjast með þessu svæði sem öðrum. Lagagreinin er alveg skýr og engin undanþága heimil,“ segir hann og bætir við að þeir ökumenn sem lenda í því að þurfa að stoppa ökutæki sín vegna þess að strætó stoppar við strætóskýlið gætu einnig átt von á sekt.

„Menn geta ekki leyft sér að búa til þær aðstæður að ökumenn fái sekt vegna þess að vagnstjórar þurfa að stoppa. Bílstjórinn fær jú sektina en ekki veghaldari sem í þessu tilviki er Reykjavíkurborg,“ segir Árni enn fremur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert