Önnum kafin í ellinni

Jóhanna Wilson setur krem á vínartertu fyrir boðið á morgun.
Jóhanna Wilson setur krem á vínartertu fyrir boðið á morgun. Ljósmynd/Karen Botting

Vest­ur-Íslend­ing­ur­inn Jó­hanna Guðrún Skapta­son Wil­son er 100 ára í dag og held­ur upp á af­mælið í sam­komu­sal út­far­ar­stofu Neils Bar­dals í Winnipeg í Kan­ada á morg­un. „Ég á von á um 125 gest­um víðs veg­ar að í Kan­ada, Banda­ríkj­un­um og á Íslandi og laug­ar­dag­ur hent­ar þeim bet­ur en föstu­dag­ur,“ seg­ir hún.

Jó­hanna virðist alltaf vera eins, tek­ur eng­in lyf, er hraust og önn­um kaf­in. Man allt, hef­ur frá mörgu að segja, er kát og skemmti­leg, og ber öllu sam­ferðafólki vel sög­una. Ekki síst Íslend­ing­um. „Fólkið er það besta við Ísland,“ seg­ir hún, en Jó­hanna hef­ur komið 15 sinn­um til lands­ins síðan 1964, síðast fyr­ir fjór­um árum, og auk þess kynnst fjölda Íslend­inga vestra. „Ég elska að tala ís­lensku, þó að ég kunni hana ekki eins og þegar ég var barn, er von­laus í mál­fræðinni og get ekki skrifað málið. Samt hef ég sent jóla­kort á ís­lensku til að láta líta út fyr­ir að ég sé tví­tyngd en þá hef ég fengið hjálp við þýðing­una. Ég veit að fólk fyr­ir­gef­ur mér það!“

Eng­inn tími til að skrifa

For­eldr­ar henn­ar voru Jó­hanna Guðrún Sím­on­ar­dótt­ir, fædd á Gimli í Manitoba 1878, og hálf­syst­ir dr. Val­týs Guðmunds­son­ar, og Jós­ef Björn Skapta­son, fædd­ur í Húna­vatns­sýslu 1873. Sím­on Sím­on­ar­son og Val­dís Guðmunds­dótt­ir, afi og amma henn­ar í móðurætt, voru í fyrsta hópn­um sem flutti til Kan­ada 1874 og Val­dís tók á móti fyrsta ís­lenska barn­inu, sem fædd­ist á Gimli. Jó­hanna Guðrún og Jós­ef misstu tvö börn skömmu eft­ir að þau gengu í hjóna­band. Þau ætt­leiddu Mar­gréti Hólm­fríði Blön­dal og Önnu Guðrúnu Christian­son áður en Jó­hanna fædd­ist. „Mig lang­ar til þess að skrifa um for­eldra mína svo fólk muni eft­ir þeim, en ég hef verið svo upp­tek­in að mér hef­ur ekki gef­ist tími til þess enn,“ seg­ir Jó­hanna, sem hef­ur haldið ýmsu merki­legu til haga. Mæðgurn­ar áttu til dæm­is stór­an þátt í út­gáfu minn­ing­ar­rita ís­lenskra her­manna, Jó­hanna Guðrún um her­menn í fyrri heims­styrj­öld­inni og Jó­hanna í þeirri síðari.

Fé­lags­mál hafa verið sem rauður þráður í lífi Jó­hönnu. Móðir henn­ar var helsta hvata­kon­an að stofn­un kven­fé­lags­ins Jón Sig­urðsson – kvenna­deild IODE (Im­per­ial Or­der Daug­hters of the Empire) 1916 og formaður fyrstu 17 árin. Jó­hanna hef­ur verið í fé­lag­inu í yfir 70 ár og hef­ur gegnt for­mennsku í tvígang auk þess sem hún hef­ur lagt sitt af mörk­um í Fé­lagi há­skóla­kvenna í Winnipeg síðan 1945, sama ár og hún lauk námi í heim­il­is­fræði sem hún kenndi síðan um ára­bil.

Nán­ar má lesa um þetta í Morg­un­blaðinu í dag.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert