Vestur-Íslendingurinn Jóhanna Guðrún Skaptason Wilson er 100 ára í dag og heldur upp á afmælið í samkomusal útfararstofu Neils Bardals í Winnipeg í Kanada á morgun. „Ég á von á um 125 gestum víðs vegar að í Kanada, Bandaríkjunum og á Íslandi og laugardagur hentar þeim betur en föstudagur,“ segir hún.
Jóhanna virðist alltaf vera eins, tekur engin lyf, er hraust og önnum kafin. Man allt, hefur frá mörgu að segja, er kát og skemmtileg, og ber öllu samferðafólki vel söguna. Ekki síst Íslendingum. „Fólkið er það besta við Ísland,“ segir hún, en Jóhanna hefur komið 15 sinnum til landsins síðan 1964, síðast fyrir fjórum árum, og auk þess kynnst fjölda Íslendinga vestra. „Ég elska að tala íslensku, þó að ég kunni hana ekki eins og þegar ég var barn, er vonlaus í málfræðinni og get ekki skrifað málið. Samt hef ég sent jólakort á íslensku til að láta líta út fyrir að ég sé tvítyngd en þá hef ég fengið hjálp við þýðinguna. Ég veit að fólk fyrirgefur mér það!“
Foreldrar hennar voru Jóhanna Guðrún Símonardóttir, fædd á Gimli í Manitoba 1878, og hálfsystir dr. Valtýs Guðmundssonar, og Jósef Björn Skaptason, fæddur í Húnavatnssýslu 1873. Símon Símonarson og Valdís Guðmundsdóttir, afi og amma hennar í móðurætt, voru í fyrsta hópnum sem flutti til Kanada 1874 og Valdís tók á móti fyrsta íslenska barninu, sem fæddist á Gimli. Jóhanna Guðrún og Jósef misstu tvö börn skömmu eftir að þau gengu í hjónaband. Þau ættleiddu Margréti Hólmfríði Blöndal og Önnu Guðrúnu Christianson áður en Jóhanna fæddist. „Mig langar til þess að skrifa um foreldra mína svo fólk muni eftir þeim, en ég hef verið svo upptekin að mér hefur ekki gefist tími til þess enn,“ segir Jóhanna, sem hefur haldið ýmsu merkilegu til haga. Mæðgurnar áttu til dæmis stóran þátt í útgáfu minningarrita íslenskra hermanna, Jóhanna Guðrún um hermenn í fyrri heimsstyrjöldinni og Jóhanna í þeirri síðari.
Félagsmál hafa verið sem rauður þráður í lífi Jóhönnu. Móðir hennar var helsta hvatakonan að stofnun kvenfélagsins Jón Sigurðsson – kvennadeild IODE (Imperial Order Daughters of the Empire) 1916 og formaður fyrstu 17 árin. Jóhanna hefur verið í félaginu í yfir 70 ár og hefur gegnt formennsku í tvígang auk þess sem hún hefur lagt sitt af mörkum í Félagi háskólakvenna í Winnipeg síðan 1945, sama ár og hún lauk námi í heimilisfræði sem hún kenndi síðan um árabil.
Nánar má lesa um þetta í Morgunblaðinu í dag.