Reiðhjólafólk leggur til meiri skattaafslátt

Landssamtök hjólreiðamanna leggja til að ívilnanir vegna kaupa á reiðhjólum …
Landssamtök hjólreiðamanna leggja til að ívilnanir vegna kaupa á reiðhjólum verði töluvert hærri en lagt er til í frumvarpsdrögunum. mbl.is/Hari

Þrjátíu og sex umsagnir bárust frá einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum í samráðsgátt stjórnvalda, um drög að frumvarpi til laga um skattaívilnanir vegna vistvænna ökutækja. Í frumvarpinu er meðal annars kveðið á um að reiðhjól og rafmagnshjól verði undanþegin virðisaukaskatti upp að ákveðnu hámarki og einnig er lagt til að afnema virðisaukaskattsívilnanir á tengitvinnbíla í upphafi árs 2021. Samráðinu lauk í vikunni og eru umsagnir almennt jákvæðar.

Þau tvo atriði sem nefnd eru hér að ofan hafa verið nokkuð til umfjöllunar í fjölmiðlum á meðan umsagnarferlið stóð yfir. Félag íslenskra bifreiðaeigenda lýsti því yfir að það teldi ótímabært að falla frá skattaívilnunum vegna kaupa á tengitvinnbílum og þá Landssamtök hjólreiðamanna og raunar nokkuð margir einstaklingar gert athugasemdir við þær fjárhæðir sem talað er um í frumvarpsdrögunum varðandi reiðhjól. Þær mættu vera hærri, að þeirra mati.

Árni Davíðsson formaður Landssamtaka hjólreiðamanna ræddi málið við mbl.is í upphafi mánaðar og sagði að hann teldi væn­legt að hækka upp­hæðirn­ar sem eru í spilinu hvað reiðhjól varðar um hundrað þúsund krón­ur, þannig að venju­leg reiðhjól yrðu und­anþegin virðis­auka­skatti upp að 200.000 krón­um og raf­magns­hjól mættu kosta 500.000 kr. út úr búð, áður en virðis­auka­skatt­ur yrði greidd­ur af vör­unni.

Í endanlegri umsögn samtakanna er ánægju lýst yfir með frumvarpsdrögin, en þó sagt að upphæðir ívilnana fyrir reiðhjól séu „skornar við nögl“, nái ekki alveg að jafna stöðuna gagnvart rafmagnsbílum. Flestir þeirra einstaklinga sem rita umsagnir við frumvarpið fjalla um það sama.

„Til að jafna stöðuna gagnvart rafmagnsbílum leggja LHM til að upphæð ívilnana verði hækkuð þannig að fótstigin reiðhjól að 300.000 kr. og rafmagnsreiðhjól að 600.000 kr. verði án virðisaukaskatts,“ segir í umsögn samtakanna, sem einnig leggja til að svokölluð nytjahjól, reiðhjól sem ætluð eru til flutnings á vörum, fólki og börnum, fái sérstakar skattaívilnanir. Leggja samtökin fram tillögur að breyttri tollflokkun, svo að svo megi verða.

Samtökin Hjólafærni á Íslandi vekja einnig athygli á því í umsögn sinni að ekki sé horft til nytjahjólanna, „þeirra reiðhjóla sem vænlegust eru til að leysa af hólmi ýmis konar smáflutninga í þéttri byggð“ og segja samtökin að þó að slík hjól fáist í dag ekki í almennri sölu á landinu hljóti það að vera „daga spursmál“ hvenær þau ryðji sér til rúms hér á landi.

Þá vekja samtökin athygli á því að að vistvæn vélknúin ökutæki séu almennt þyngri en bensín og dísel vélknúin ökutæki og því sé „enn frekari ástæða til að gera athugasemd við nagladekkjanotkun slíkra ökutækja. Með þyngdinni er viðbúið að þau spæni enn frekar upp loftmengandi svifryki sem ógnar heilsu, einkum í þéttbýli.“

Mikilvægi tengitvinnbifreiða enn mikið

Í nokkrum umsögnum er lagt til að fallið verði frá því að leggja niður ívilnanir fyrir tengitvinnbifreiðar, eins og Félag íslenskra bifreiðaeigenda hafði fjallað um. Samorka, samtök orku- og veitu fyrirtækja á Íslandi, leggja þannig til að ívilnanirnar falli ekki niður í árslok 2020 heldur verði bundnar því skilyrði að bílarnir dragi fimmtíu kílómetra á rafmagni einu og sér.

„Þetta er í ljósi þess að á allra næstu árum verður mikilvægi tengiltvinnbifreiða fyrir orkuskipti enn mikið, og ekki er tímabært að mati Samorku að taka út þessa ívilnun. Frekar ætti að halda henni inni á þann hátt sem Samorka leggur til og endurskoða eftir 2-3 ár,“ segir í umsögn Samorku.

Rafbílasambandið setur spurningamerki við að ívilnanir á rafbílum nái ekki …
Rafbílasambandið setur spurningamerki við að ívilnanir á rafbílum nái ekki ekki til bíla sem orðnir eru þriggja ára gamlir. „Ef eldri bílar en þriggja ára fengju ívilnun gæti það veitt auknum krafti í notaða markaðinn og flýtt þátttöku tekjulægri hópa í orkuskiptunum,“ segir sambandið. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ísorka tekur í sama streng í sinni umsögn  og segist fyrirtækið harma að falla eigi frá ívilnunum tengitvinnbíla.

„Í dag er það skortur á afhendingu rafbíla frá framleiðendum sem tefur orkuskipti á fólksbílum. Einnig er skortur á framboði stærri fjölskyldubíla í flokki hreinna rafbíla. Sökum þess hafa margir nýtt sér kosti tengiltvinnbifreiða þar sem bið eftir nýjum bíl hafa staðið í vegi fyrir fjárfestingu. Á meðan við búum við þær aðstæður að ekki sé nægt magn hreinna rafbíla í boði og afköst á framleiðslu þeirra tefji orkuskipti teljum við ótímabært að stöðva ívilnanir til tengiltvinnbíla. Óttumst við að margir munu fjárfesta í nýjum jarðefnaeldsneytisbíl fremur en að bíða eftir hreinum rafbíl og/eða fjárfesta í dýrum tengiltvinnbíl án ívilnana,“ segir í umsögn Ísorku.

Tengja eigi ívilnanir við rafhlöðustærð rafbíla

Rafbílasamband Íslands segir að núverandi fyrirkomulag við ívilnanir valdi rangri verðmyndun á markaði, þar sem bílar með stærri rafhlöðu lendi yfir verðþakinu. Leggur sambandið til að ívilnun verði föst krónutala á hverja kWst stærðar rafhlöðu, en ekki verð bifreiðar. Það sé rökréttast, þar sem tilangur ívilnana sé að greiða niður rafhlöðuna. Þetta sé hvati fyrir neytendur til þess að kaupa frekar bíl með stærri rafhlöðu og þar af leiðandi lengra drægi, á kostnað íburðar.

Rafbílasambandið segir einnig spurningamerki við að ívilnanir á rafbílum nái ekki ekki til bíla sem orðnir eru þriggja ára gamlir. „Ef eldri bílar en þriggja ára fengju ívilnun gæti það veitt auknum krafti í notaða markaðinn og flýtt þátttöku tekjulægri hópa í orkuskiptunum,“ segir sambandið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert