Ætla að róa til Suðurskautslandsins

Fiann Paul rær hér við Jan Mayen. Róið er í …
Fiann Paul rær hér við Jan Mayen. Róið er í opnum árabát sem sérhannaður er fyrir úthafsróður. Ljósmyndir/Fiann Paul

Yfir jól og áramót mun ævintýramaðurinn og úthafsræðarinn Fiann Paul, sem hefur búið á íslandi undanfarin rúmlega áratug og rær undir íslenskum fána, takast á við enn eitt þrekvirkið þegar hann ætlar, ásamt áhöfn sinni, að róa á milli Suður-Ameríku og Suðurskautslandsins. Er það í fyrsta skipti sem reynt er að róa svokallað Drakesund, en það er þekkt fyrir mjög þunga strauma og miklar öldur.  Takist ætlunarverkið verður Fiann fyrstur manna til að ná svokallaðri úthafs ævintýra alslemmu (e. Ocean Explorers Grand Slam), en í því felst að hafa róið yfir Atlantshafið, Indlandshafið, Kyrrahafið, Norður Íshafið og nú að lokum Suður Íshaf.

Sex saman í 20 daga á opnum árabát

„Þú getur kallað þetta brjálæði,“ segir Fiann léttur í bragði þegar mbl.is nær tali af honum vegna leiðangursins. Eins og í fyrri úthafsróðrarleiðöngrum hans er farið á opnum róðrarbát sem er þó sérhannaður í verkefnið. Samtals verða sex í áhöfn, en þeirra á meðal er bandaríski ævintýrakappinn Colin O‘Brady, en hann á meðal annars heimsmet fyrir að vera fljótastur á hæsta tind hverrar heimsálfu og að ljúka hefðbundinni ævintýra alslemmu (e. explorers grand slam), en þá er farið á fyrrnefnda tinda auk norðurpólsins og suðurpólinn.

Leiðin frá Hornhöfða að Suðurskautslandinu og svo áætluð leið að …
Leiðin frá Hornhöfða að Suðurskautslandinu og svo áætluð leið að íshellunni.

Farið verður frá Hornhöfða, sem er syðsti hluti Suður-Ameríku og er áætlað að ferðalagið hefjist 9. desember. Ef allt gengur að óskum segir Fiann að búist sé við að þeir klári leiðangurinn í kringum áramótin. Fiann segir að þó vegalengdin sé ekkert rosalega löng miðað við fyrri ferðalög hans þá sé líklega um erfiðasta verkefnið að ræða.

Segir Fiann að bæði eigi það við um aðstæður meðan á siglingu stendur, en ekki síður um ytri aðstæður. Aðstæður í hafinu geta reynt mikið á, en öldurnar geta verið allt að 15 metra háar. Þá kallar róður á þessum slóðum á gríðarlega skipulagningu og meira umstang en hann hefur áður þurft að standa fyrir í kringum fyrri róðra sína. Helgast það af skilyrðum í alþjóðlega Suðurskautasamkomulaginu, en Fiann segir að óheimilt sé að róa á róðrarbátum á þessum  slóðum nema í fylgd með skipi. „Maður getur ekki gert allt sem maður vill þarna,“ segir hann. Vegna þessa verður kostnaður vegna ferðarinnar gríðarlegur og segir Fiann að ferðin sé farin í samstarfi við Discovery sjónvarpsstöðina sem ætli að gera heimildarmynd um leiðangurinn.

Undirbúningur í tvö ár

Fiann, sem sjálfur er kafteinn og leiðangursstjóri, segir að undirbúningurinn hafi tekið tvö ár. Þar hafi spilað inn í fyrrnefnd leyfi og fjárhagsmál. Colin er þekkt nafn í þessum afreksheimi og segir Fiann að aðkoma hans hafi auðveldað fjármögnunina nokkuð. Aðrir í áhöfninni eru Cameron Bellamy, John Petersen, Andrew Towne og Jamie Douglas-Hamilton. Hefur Fiann róið með tveimur þeirra áður þegar farið var yfir Indlandshaf, en hinir eru nýir.

Fiann Paul er einn reyndasti úthafsræðari heims og hefur róið …
Fiann Paul er einn reyndasti úthafsræðari heims og hefur róið undir fána Íslands síðasta áratuginn. Ljósmynd/Aðsend

Allt að 1.500 kílómetra róður

Fiann áætlar að þeir muni róa um 500 sjómílur, eða rúmlega 900 kílómetra, að Suðurskautsskaganum (O‘Higgins skaganum), en það er nyrsti hluti Suðurskautslandsins. En þar með er ekki öll sagan sögð, því markmiðið er að komast alla leið þar sem íshellan byrjar og bætir það að hans sögn um 300 sjómílum, eða tæplega 600 kílómetrum við. Segir hann að miðað við árstíma, sem verður sumar á þessum slóðum, ættu þeir að koma að íshellunni á milli 67. og 70. breiddarbaugs. Til samanburðar byrjar íshellan við norðurpólinn á um 80. breiddarbaug.

Fiann hefur talsverða reynslu að skipulagningu leiðangra sem þessara, en hann var leiðangursstjóri í nokkrum af fyrri ferðum sínum. Þá hefur hann undanfarin ár lagt stund á sálfræði þar sem hann hefur meðal annars sett fram hugmyndir sínar um hvernig ákveðnar persónuleikaraskanir geti verið drifkraftur fyrir líkamlegar ofurþolraunir. Fjallaði mbl.is ítarlega um þau mál nýlega.

Þessi bakgrunnur kemur sér vel að sögn Fiann varðandi að setja saman rétta hópinn í svona verkefni, en þar þarf samstarf og traust að vera fullkomið. Sjálfur hefur Fiann ásamt Hauki Inga Jónassyni kennt námskeið í leiðtogahæfni og stjórnun við Háskólann í Reykjavík undanfarið og segir hann að þar sé meðal annars lögð áherslan á þessar hugmyndir hvernig ná eigi sem mestu út úr hverjum og einum og þar með teyminu. Verður kennsla hans á slíku námskeiði nú um helgina einmitt hans síðasta verkefni hér á landi áður en hann heldur erlendis í næstu viku.

Takist áhöfninni ætlunarverk sitt mun Fiann vinna sér inn nokkur heimsmet, bæði fyrir að vera hluti af áhöfninni sem tókst þetta verkefni fyrst sem og einstaklingsmet fyrir að klára fyrstur að róa yfir öll úthöfin. Með þessu bætir hann enn í safnið, en fyrir á hann 30 heimsmet staðfest í Heimsmetabók Guinness og þar af 23 sem eru vegna beins árangurs, en ekki í tengslum við aldur eða slíkt. Verður Fiann með þessu líklega sá einstaklingur sem á flest heimsmet sem tengjast líkamlegri getu.

Staðfestingar heimsmetabókar Guiness á hluta meta Fiann.
Staðfestingar heimsmetabókar Guiness á hluta meta Fiann. Ljósmynd/Fiann Paul
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert