Kerhóll, eldsumbrot, sporbaugur og hnattstaða eru íslensk orð sem öll eru hugargjörð Jónasar Hallgrímssonar, náttúrufræðingsins og listaskáldsins sem Dagur íslenskrar tungu, 16. nóvember, er tileinkaður. Jónas er einnig höfundur orðsins jarðfræði og því þótti við hæfi að vefurinn www.islenskeldfjoll.is sem er opinbert uppflettirit og heildaryfirlit um virkar eldstöðvar á Íslandi, alls 32 talsins, væri opnaður í dag.
Eldstöðvar þessar eru til dæmis Askja, Bárðarbunga, Öræfajökull, Hekla, Katla, Eyjafjallajökull og Reykjanesskagi.
Eldfjallavefsjáin er samstarfsverkefni Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra auk þess sem fjöldi sérfræðinga á Íslandi og í útlöndum hefur lagt verkefninu lið. Þykir nauðsynlegt að þessar upplýsingar séu allar tiltækar og almenningi aðgengilegar, bæði í öryggisskyni og vegna þess hve áhugi almennings á jarðfræði og undrum náttúrunnar er mikill.
„Þessi vefsmíði hefur staðið lengi yfir,“ segir Bergrún Óladóttir jarðfræðingur í samtali við Morgunblaðið. „Við hófumst handa fljótlega eftir Eyjafjallagosið 2010 við hönnun og upplýsingaöflun en þá reyndist vera þörf erlendis á upplýsingum um íslensk eldfjöll. Ensk útgáfa fór í loftið 2016 og fyrir nokkrum misserum fengum við svo styrk til að koma efninu yfir á íslensku. Þetta hefur verið mjög áhugavert verkefni og gaman að kynnast þeim mikla fjölda orða á íslensku máli sem eru höfundarverk Jónasar.“
Skáldið Jónas Hallgrímsson (1807-1845) er talinn einn brautryðjenda íslenskra náttúruvísinda. Hann tók lokapróf í náttúruvísindum árið 1838 með jarðfræði og steinafræði sem sérgrein. Samhliða rannsóknum og skrásetningu á náttúru Íslands orti Jónas eins og enginn væri morgundagurinn, sem skóp honum nafn. Sitthvað af því sést á vefnum góða.
Af öðru góðu í orðabanka Jónasar má nefna orð eins og aðdráttarafl, félagsandi, heiðardalur, himingeimur, heimahöfn og hringbraut. Einnig huldumey, hundsvit, miðbaugur, páfagaukur, sjónauki, skötuselur og þrumrödd.