„Ertu reddí í easy snipe?“

Megnið af stjórnendum, aðstandendum og starfsfólki rannsóknarinnar sem formlega kallast …
Megnið af stjórnendum, aðstandendum og starfsfólki rannsóknarinnar sem formlega kallast „Íslenskt unglingamál: Rannsókn á samskiptaaðferðum í raungögnum“. Frá vinstri: Dr. Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði, Eva Ragnarsdóttir Kamban, BA-nemi í almennum málvísindum, Dagbjört Guðmundsdóttir, doktorsnemi innan verkefnisins, Iðunn Kristínardóttir, Atli Snær Ásmundsson og Eva Hrund Sigurjónsdóttir, BA-nemar í almennum málvísindum, og dr. Helga Hilmisdóttir, rannsóknardósent á orðfræðisviði stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og stjórnandi rannsóknarinnar. Eggert Jóhannesson

„Ég hef lengi haft áhuga á unglingamáli, eiginlega allar götur síðan ég hóf nám,“ segir dr. Helga Hilmisdóttir, rannsóknardósent á orðfræðisviði stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og stjórnandi rannsóknar á orðfæri 13 – 18 ára unglinga á Íslandi sem hófst í fyrra og stendur fram á næsta ár. Tilgangur rannsóknarinnar, sem er samstarfsverkefni fræðimanna við Árnastofnun, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri, er að kortleggja ýmis einkenni íslensks unglingamáls á grundvelli raungagna sem einkum fást með upptökum af samtölum við ýmsar aðstæður, svo sem af félögum að spila tölvuleiki, vinkvennahópi í bíltúr, nemendum að læra heima í félagsskap og þar fram eftir götunum.

Þetta efni taka unglingarnir upp sjálfir. Rannsóknin byggist þó einnig á stýrðum hópsamtölum þriggja til fjögurra þátttakenda um fyrirframgefið umræðuefni og er þá tekið upp í skólastofum, en auk höfuðborgarsvæðisins eru þátttakendur rannsóknarinnar á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi. Eins felur rannsóknin í sér rafræna könnun á slanguryrðum sem nær til 1.000 þátttakenda og stendur til að bera niðurstöður hennar saman við sambærilega könnun sem gerð var árið 2000.

Fannst vanta rannsókn á alvörusamtölum

Helga segist hafa tekið við stöðunni á Árnastofnun eftir að hafa starfað sem lektor við Winnipeg-háskóla og Háskólann í Helsinki. „Það lá einhvern veginn í loftinu að skoða unga fólkið úr því búið er að tala svo mikið um það að unga fólkið hafi ekki áhuga lengur á að tala íslensku og sé að skipta yfir í ensku,“ útskýrir Helga. „Mér fannst bara vanta rannsókn á alvörusamtölum, að taka upp hvernig þau tala í alvörunni, bæði í samtölum við fullorðna og eins í einkasamtölum sín á milli,“ segir Helga sem sótti um og fékk styrk til verksins frá Rannsóknamiðstöð Íslands, Rannís, en fjórir BA-nemendur í almennum málvísindum hafa verið í hlutastarfi frá því í janúar við að skrá samtöl unglinganna orðrétt eftir upptökunum.

„Undrandi renndi ég augum með bókanna röðum: / eljuverk þúsunda, …
„Undrandi renndi ég augum með bókanna röðum: / eljuverk þúsunda, varðveitt á skrifuðum blöðum;“ orti Jón Helgason prófessor í ljóði sínu Í Árnasafni sem þó var ort um safnið í Kaupmannahöfn enda um 40 ár í að bygging Árnagarðs við Háskóla Íslands hæfist þegar Jón orti. Hér má sjá brot af safnkosti Stofnunar Árna Magnússonar. Eggert Jóhannesson

Freistandi er að spyrja um áhrif þess á þátttakendur þegar þeir vita að verið er að kanna orðfæri þeirra. Er þá ekki hætt við því að fólk, meðvitað eða ómeðvitað, breyti orðræðu sinni, reyni til dæmis að sneiða hjá slettum, eða jafnvel sletta sem aldrei fyrr? „Ég segi bara við þau að ég sé ekki að leita að neinu sérstöku, ég vilji bara fá að heyra hvernig fólk tali saman á Íslandi í dag og ég ákveð ekki fyrir fram hvað ég ætla að taka fyrir, unglingarnir stýra því dálítið sjálfir,“ segir rannsóknarstjórnandinn og leggur áherslu á að megintilgangur verkefnisins sé að safna saman alvörusamtölum.

Helga telur það ekki vega þungt að þátttakendur rannsóknarinnar viti að málfar þeirra er til skoðunar við upptökurnar. „Samtal er alltaf samtal og það er í raun eðlilegt að fólk tali um það í slíku samtali að upptaka sé í gangi af því að það er bara hluti af umhverfinu,“ segir hún.

Nýtist á vettvangi máltækni

Upptökum sem fram fóru í grunn- og framhaldsskólum er lokið og gekk rannsakendum að sögn Helgu allt í haginn við að fá nemendur til þátttöku en þeir urðu um 270. Helga segir frá því að kynningarbréf hafi verið send í nokkra skóla um landið og stjórnendur þar kynnt verkefnið fyrir nemendum sem hafi svo eftir atvikum boðist til þátttöku. Örðugra reyndist um vik þegar kom að því að fá upptökur af persónulegum samtölum unglinga og voru allar klær hafðar úti, aðstandendur og starfsfólk rannsóknarinnar hafi að sögn Helgu einfaldlega í nokkrum tilvikum þekkt fólk á réttum aldri og vakið athygli þess á mögulegri þátttöku. Auðveldast reyndist að fá þátttakendur í rafrænu slangurkönnunina og eru þeir, eins og fyrr segir, yfir 1.000 talsins.

Helga segir unga fólkið upp til hópa hafa sýnt viðfangsefninu töluverðan áhuga. „Þau eru náttúrulega forvitin um hvers vegna við séum að þessu, flestir hafa verið mjög jákvæðir og finnst þetta bara spennandi held ég,“ segir hún og bætir því við að einn þeirra möguleika sem rannsóknin bjóði upp á sé að nota afrakstur hennar á vettvangi máltækni, það er við þróun búnaðar sem getur unnið með, myndað og skilið mannlegt mál svo nothæft verði í samskiptum manneskju og tölvu.

„Til þess að hægt sé til dæmis að kenna tölvu að skilja alla aldurshópa þurfa að vera til upptökur af fólki á öllum aldri, ekki bara miðaldra,“ segir rannsóknardósentinn og skellir upp úr. Fræðilegt gildi verkefnisins er þó víðfeðmara og bendir Helga á ótvírætt verðmæti þess að eiga upptökur af samtölum unglinga nútímans til að bera saman við sambærilegt efni á öðrum tímum. Hér sé um raunveruleg samtöl að ræða en ekki upplestur á texta sem eigi það til að auka á stífni þess sem talar og verða þar með takmarkaðri heimild um sjálft málið.

Orðræðuögnin „þúst“

Sjálf er Helga fædd árið 1972, í hverju telur hún muninn einkum felast á orðfæri unglinga 21. aldarinnar samanborið við hennar eigin unglingsár? „Frá því ég var unglingur er komin miklu meiri enska í hversdagslegt tal, núna er ég ekki að tala um þegar krakkarnir eru að hitta mig í skólunum heldur þegar þau eru að tala saman í einkasamtölum sín á milli,“ segir hún og rifjar upp að þetta hafi hreinlega ekki verið komið á hennar unglingsárum. Tekur Helga þó fram að hún sé frá Akureyri, sem blaðamaður réð reyndar snemma í spjallinu af framburði hennar, og gerir fyrirvara um mun á málfari unglinga norðan og sunnan heiða.  

Dr. Sigríður Sigurjónsdóttir (t.v.) á sæti í fimm manna stjórn …
Dr. Sigríður Sigurjónsdóttir (t.v.) á sæti í fimm manna stjórn unglingamálsrannsóknarinnar en dr. Helga Hilmisdóttir stýrir rannsókninni. Eggert Jóhannesson

Annað atriði sem Helga nefnir eru orðræðuagnir á borð við „þúst“, styttingu á „þú veist“, sem hafi ekki þekkst á hennar yngri árum en tekið að ryðja sér til rúms í mæli unglinga nálægt aldamótum auk mikillar notkunar á „bara“ eða „bara eitthvað“ þegar vitnað er í eitthvað sem einhver sagði. Þá sé inngangurinn ekki lengur „þá sagði hann“ heldur „og hann bara eitthvað“ og í kjölfarið fylgi svo tilvitnunin.

Áberandi er einnig að mati Helgu hvernig notkun gamalgróinna íslenskra orða hefur breyst og nefnir hún í dæmaskyni sögnina að elska. „Ég elska hvernig við...“ eitthvað, í merkingunni „I just love how we...“,“ segir hún máli sínu til stuðnings. „Þarna er sögnin notuð á svolítið nýjan hátt og eins er notkun fleiri orða að breytast á sambærilegan hátt.

Símtöl illfáanleg

Skyldi þá mega greina lakari tök á íslenskri málfræði og málnotkun samhliða því sem enskan fær meira rými í daglegu tali unglinga?

„Mér hafa fundist þessi samtöl þegar þau eru að leggja sig fram og þegar þau eru að tala við fullorðna vera þannig að ég heyri ekki neinar áberandi breytingar eða nokkuð sem gefur til kynna að þeirra málfræðikunnátta sé lakari en annarra,“ svarar Helga og bætir því við að þeim unglingum sem noti hvað mestar enskuslettur og slangur í máli sínu verði síst meiri fótaskortur í íslensku málfræðinni en öðrum sem minna halli sér að enskunni. Áréttar hún þó skýrt að þessar vangaveltur séu aðeins hennar tilfinning eftir samtölin, engin greiningarvinna sé enn hafin í rannsókninni og því ekki hægt að tala um neinar niðurstöður sem rannsakendur geti hengt hatt sinn á, enda málvillur og ambögur engan veginn rannsóknarefnið heldur hvernig unglingar móti samskipti sín á milli með tungumálinu.

Hún segist helst sakna þess í rannsókninni hve illa hafi gengið að fá upptökur af símtölum þátttakendanna, á þeim vettvangi sé verulega á brattann að sækja enda séu símar nútímans mun minna hafðir til að beinlínis tala í þá miðað við það sem áður þekktist. „En ég ætla nú samt að reyna að fá einhver símtöl,“ segir Helga Hilmisdóttir, rannsóknardósent við Árnastofnun, vongóð í lok spjallsins.

Skráning lengstu samtalanna tekur vikur

„Það var auglýst eftir aðstoðarfólki við að skrá samtölin sem Helga og fleiri taka upp og við bara sóttum um og fengum starfið,“ segir Eva Ragnarsdóttir Kamban, BA-nemi á öðru ári í almennum málvísindum við Háskóla Íslands. Eva er talsmaður aðstoðarmannanna, fjögurra BA-nema í almennum málvísindum sem hafa haft það að hlutastarfi síðan snemma á árinu að skrá orðrétt það umfangsmikla upptökusafn sem unglingamálsrannsóknin elur af sér.

Í fljótu bragði virðist þó skráning orðalagsins sjálfs vera minnsti hluti verksins, myndarlegt safn hliðartákna er notað til að gefa til kynna ótal atriði í mæli þess sem talar, hvort talað sé á innöndun, lengd málhvílda í sekúndubrotum, hvort mælandi hafi talað hratt, hvort hlátrasköll hafi glumið eða hlátur sé í röddu, hvenær tveir tala samtímis, hvort þagnað sé í miðju orði, áberandi amerískur hreimur notaður með enskum orðum og fleiri atriði, svo ljóst má vera að skrásetjari þarf að vera fullkomlega með á nótunum og hárnákvæmur.

Fjórir BA-nemar og doktorsnemi. Fjórmenningarnir til vinstri eru starfsfólk rannsóknarinnar …
Fjórir BA-nemar og doktorsnemi. Fjórmenningarnir til vinstri eru starfsfólk rannsóknarinnar og vinna við það í hlutastörfum að skrásetja upptökur af samtölum íslenskra ungmenna sem er eljuverk sem mest má vera svo sem lesa má út úr hárnákvæmum færslunum neðst í greininni þar sem jafnvel sekúndubrotin skipta sköpum. Eggert Jóhannesson

Auk aðstoðarmannanna starfa reyndar fleiri nemendur við rannsóknina, tveir í MA-námi og einn doktorsnemi. Eva játar að skráningin geti tekið á, samtölin séu allt að 50 mínútna löng og skráning samtals af þeirri lengd geti auðveldlega náð yfir nokkrar vikur í hlutastarfi en starfshlutfall skrásetjaranna fjögurra er á bilinu 20 til 30 prósent.

Leyfa sér að sletta meira sín á milli

Eva tekur undir það mat Helgu hér að ofan að ekki virðist það hafa afgerandi áhrif á rannsóknina að viðfangsefnin viti eftir hverju er slægst, það er að upptökunum sé ætlað að fylgjast með málfari þeirra. „Það er svo sem ekkert hægt að tryggja að þetta hafi engin áhrif, en miðað við það sem ég hef hlustað á fær maður á tilfinninguna að þau gleymi upptökunni fljótlega og samtölin hljóma mjög eðlilega,“ segir Eva.

Með svo ríkulegan aðgang að málfari íslenskra unglinga ársins 2019 er málvísindaneminn, sem er 23 ára gamall, beðinn að meta helstu breytingar, ef einhverjar, síðan á eigin unglingsárum. „Jááá,“ svarar Eva hugsi og teygir úr á-inu. „Það er yfirleitt mjög skemmtilegt að hlusta á hversdagssamtölin þegar þau eru með sínum aldurshópi og ekki að tala við Helgu sem er fullorðin manneskja. Þá leyfa þau sér að sletta meira og eru ekki að hugsa eins mikið um hvernig þau segja hlutina,“ segir Eva frá. Hún segir, eins og Helga, að hlutur enskunnar virðist orðinn meiri í unglingamáli nú en á hennar unglingsárum, þrátt fyrir að þó hafi enginn hörgull þá verið á enskum orðum og áhrifum í unglingamálinu. Eva telur aukninguna einkum eiga rætur sínar á lýðnetinu og nefnir sérstaklega vefina YouTube og Netflix máli sínu til stuðnings.

Árnagarður. Eva segir andrúmsloft fræðanna gott og ætlar sér að …
Árnagarður. Eva segir andrúmsloft fræðanna gott og ætlar sér að óbreyttu áfram í meistaranám í almennum málvísindum. Eggert Jóhannesson

Blaðamanni leikur hugur á að vita hvernig lífið sé í gamla Árnagarði núna, enda 20 ár á næsta ári síðan hann lauk þaðan BA-prófi frá því sem þá var íslenskuskor heimspekideildar en nú heitir íslensku- og menningardeild og tilheyrir hugvísindasviði. „Lífið er skemmtilegt, andrúmsloftið í Árnagarði er mjög gott,“ segir Eva sem varð stúdent frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 2015 og hóf þá nám í ensku. „Ég hélt ég hefði svo ótrúlegan áhuga á henni, en svo kom í ljós að ég hafði bara áhuga á málfræðinni, ekki bókmenntasögunni og menningarsögunni og svona,“ rifjar hún upp og segist hafa horfið frá því námi, tekið sér frí frá skóla um tíma en því næst innritast til náms í almennum málvísindum og stefni nú með nokkurri vissu á meistaranám í því fagi að grunnnámi loknu.

„Allir dagar dagar íslenskrar tungu“

Síðasti viðmælandinn í þessari yfirferð um rannsókn á íslensku unglingamáli er dr. Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði við HÍ, sem er nýkomin heim af ráðstefnu í Boston og rétt að koma sólarhringnum á réttan kjöl við upphaf spjalls. Sigríður situr í fimm manna verkefnisstjórn rannsóknarinnar og mun einkum koma að greiningarvinnunni þegar allar skráningar samtalanna liggja fyrir í unglingamálsrannsókninni. „Auðvitað eru allir dagar dagar íslenskrar tungu,“ segir hún þegar minnst er á tilefni viðtalsins.

Sigríður rifjar það upp að hugtakið unglingamál hafi fyrst tekið að mótast í hugum almennings þegar fólk tók að flytjast til Reykjavíkur í auknum mæli á öldinni sem leið. „Í raun var enginn grundvöllur fyrir sérstakt unglingamál þegar allar kynslóðir bjuggu saman á bóndabæ,“ segir Sigríður, „og þetta unglingamál er auðvitað oft tengt við alls konar slangur, frjóa orðmyndun og nýmyndun orða, til dæmis á síðustu öld þegar orð eins og „púkó“, „sveitó“ og fleiri í þeim dúr voru að koma fram með því að skeyta ó-i fyrir aftan. „Þegar ég var unglingur þarna sjötíu og eitthvað þá var maður að „fíla“ og „fríka út“ sem þætti líklega mjög hallærislegt slangur í dag þar sem slangrið breytist alltaf með nýrri kynslóð,“ segir hún enn fremur.

Breytt málumhverfi vegur þungt

Sigríður segir því gjarnan slegið fram að unglingamál einkennist af málbreytingum. Þær séu þó almennt komnar til þegar við máltökuferli mjög ungra barna en eðlilega sé raunin sú að aðstæður til að framkvæma á þessu hnitmiðaðar rannsóknir séu yfirleitt ekki fyrir hendi fyrr en á unglingsárum málnotandans.

„Þá er hægt að nota sömu aðferðir og við að prófa fullorðna, eða kanna málkunnáttu þeirra það er að segja, það er miklu meira mál að prófa börnin en auðvitað er það alveg gert,“ segir Sigríður sem sjálf hefur marga fjöruna sopið í rannsóknum á máltöku barna.

Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði, í kennslustund í námskeiði …
Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði, í kennslustund í námskeiði sínu um máltöku barna sem hún hefur rannsakað frá flestum hliðum. Eggert Jóhannesson

Hún segir breytt málumhverfi hverrar kynslóðar snaran þátt í að málsnið á borð við unglingamál breytist tiltölulega ört. „Þegar börn taka málið öðlast þau stundum að einhverju leyti aðra málkunnáttu en eldri kynslóðir ef málumhverfið hefur breyst. Málfræðireglurnar verða öðruvísi í hugum þeirra enda hafa þau engar beinar heimildir, þau komast ekki inn í heilann á fullorðna fólkinu til að sjá reglurnar en verða að draga eigin ályktanir um móðurmálið út frá málbeitingu fullorðinna.“

Gagnvirkir tölvuleikir „kjörmáláreiti“

Prófessorinn segir einn af styrkleikum rannsóknarinnar sem nú stendur yfir vera að hún leiði í ljós málfar í sjálfsprottnu tali unglinga samanborið við meðal annars eldri rannsókn sem Sigríður kom sjálf að og gekk út á að unglingum voru sýndar mismunandi setningar og þeir spurðir hvort þeir teldu málfar þar tækt eða ekki.

Nemendur Sigríðar drekka í sig máltökufræðin í stofu 301 í …
Nemendur Sigríðar drekka í sig máltökufræðin í stofu 301 í Árnagarði. Eggert Jóhannesson

„Krakkar og unglingar tala meiri ensku núna, hún er miklu meira í umhverfinu og tekur meira pláss,“ segir Sigríður og bætir því við að unglingarnir verði fyrir vikið betri í ensku en áður var lenska. „Sumir horfa mjög mikið á Netflix svo ég tali nú ekki um spilun gagnvirkra tölvuleikja þar sem spilarar tala jafnvel við erlenda spilara einhvers staðar úti í heimi. Þá er í raun komið þetta kjörmáláreiti fyrir máltöku og þetta hefur auðvitað áhrif á fólk sem stundar þetta mikið,“ útskýrir Sigríður af sínum kunna smitandi áhuga, en blaðamaður naut þess einmitt að sitja málfræðinámskeið hennar undir lok aldarinnar sem leið.

Margir þekktu Stefán frá Hvítadal

Að því upp rifjuðu er ekki hægt annað í lokin en að spyrja hvort Sigríður noti enn við setningafræðikennslu sína þær meitluðu setningar sem voru daglegir gestir á töflunni á síðustu öld og ekki örgrannt um að séu mörgum gömlum nemandanum í fersku minni, svo sem „Margir þekktu Stefán frá Hvítadal“ og „María kyssti afgreiðslumanninn í Bláa lóninu“.

„Já já, heldur betur,“ segir Sigríður hlæjandi og rifjar upp eina perluna til, „Margir þekktu Benjamín á ballinu“. „Ég nota þetta efni allt saman enn þá en margar þessara setninga eru komnar frá Höskuldi Þráinssyni og hafa fylgt þessu námskeiði lengi. Það er alltaf svo gaman að kenna námskeiðið Inngang að málfræði. Ég kenni það á hverju ári og nýt þess í hvert skipti að kynna heillandi heim málvísinda og íslenskrar málfræði fyrir nemendum mínum,“ segir Sigríður að skilnaði.

Fæstum nemendum Sigríðar líða úr minni sígildar setningar þeirra Höskuldar …
Fæstum nemendum Sigríðar líða úr minni sígildar setningar þeirra Höskuldar Þráinssonar, professor emeritus, í kennslustundum í setningafræði, „Margir þekktu Stefán frá Hvítadal“ og „María kyssti afgreiðslumanninn í Bláa lóninu“ auk annarra gullkorna. Eggert Jóhannesson

Nokkur sýnishorn í lokin af talmáli íslenskra unglinga hinna síðari daga eins og það birtist rannsakendum. Nöfnum hefur verið breytt.

Skýringar tákna:

[                                   tveir mælendur tala samtímis

]                                   annar mælandinn hættir að tala

(.)                                 pása sem er styttri en 0,3 sekúndur

(1,1)                             pása mæld í sekúndubrotum

ekki                             áberandi áhersla er merkt með undirstrikun              

skó-                             mælandi þagnar í miðju orði

ó::                                langt hljóð er merkt með tvípunkti

>defenetlí<                 oddklofar sem vísa inn á við tákna að mælandi

hafi talað mjög hratt

*oh my god*               stjörnur merkja hlátur í röddu

@oh my god@           Að-merki táknar að mælandi hafi notað áberandi amerískan hreim.

he he he                       hlátur

hh                                öndun

.hh                               innöndun er merkt með punkti fyrir framan

Hver er að skjóta?: Tölvuleikjasamtal grunnskólanema

(S = Steini, K = Kári)

Eftirfarandi brot er úr samtali tveggja þrettán ára drengja á höfuðborgarsvæðinu sem eru að spila tölvuleikinn Red Dead Redemption II.

01 S     >hver er að< /s:kjóta mig.

02        (2,2)

03 S     °jesú[s°

04 K         [this guy

05        (1,1)

06 S     annar

07 S     það er- já ég lagði >defenetlí< hérna.

08        (1,9)

09 S     @Yo dead man´s treasu::re,@

10        (1,1)

11 K    ójá

12        (1,6)

13 S     æ- hh

14        (3,3)

15 K    >já ókei< ((óskýrt))

16        (1,4)

17 S     @Straight up@

18        (2,5)

19 S     >það er þarna<

20        (1,7)

21 S     oh man

22        (0,3)

23 S     ertu reddí í easy snipe eða.

24        (0,6)

25 K    svo reddí

26        (0,9)

27 S     ha

28        (1,8)

29 K    ó sjitt

30 S     næstum því?

Að afgreiða kvikmyndastjörnur: Hversdagslegt samtal framhaldsskólanema

(I = Inga, P = Petra, S = Sesselja)

Eftirfarandi brot er úr samtali þriggja náinna vinkvenna á höfuðborgarsvæðinu. Þær sitja saman í bíl og spjalla um daginn og veginn.

01 I      en þúst Billy

02 P     já

03        (0,5)

04 I      þúst hann hefur alveg verið ná:lægt því að (.) hérna: (.) afgreiða fólk

05        því hann vinnur í bæ- ((dynkur svo ekkert heyrist)) [að afgreiða fólkið

06 P                                                                                 [já

07 I      úr Game of Thrones

08        (0,3)

09 P     [[de::m]

10 S     [[nei::::]

11 P     nei Danni

12 I      hann (.) líka versta er (0.3) @this made me wanna PUNCH this bitch@ .hhh

13        hann literally afgreiddi (0.4) like (.)  Cole Sprouse

14 P     NEI .hh JÚ É[G MAN EFTIR ÞVÍ?      ]

15 I                              [@l:::iterally@ afgreiddi] Cole (.) [Sprou]se]

16 P                                                                                         [Ó::  ]

17 S                                                                                         [fo: kk][aðu

18 P                                                                                                           [JÁ .h það var

19        gella í [emm há sem afgrei]ddi hann líka hh

20 I              [og hann var bara eitthvað að tala-]

21 I      hann var bara að tala við þúst eitthvað: við vinkonu sína í vinnunni .h

22        og >ba eitthva< @oh my gosh it‘s an actor@ #eitthvað# .hhh   og hann var

23        >bara eitthvað< (.)[ @/sorry? (.) Billy bara I wasn‘t talking to you@ (.)

24 S                                         [hrmhm ((ræskir sig))

Björk að verpa eggjum: Skólaviðtal við grunnskólanema

(Y = Yrsa, G =Gréta, A = Adam)

Nemendur hafa hlustað á brot af laginu Bella símamær af geisladiskinum Gling gló. Stjórnandi spyr hvort þeir hlusti á Björk en þeir segjast ekki hlusta á hana því hún sé svo undarleg. Til að færa rök fyrir máli sínu segir Y frá því að Björk hafi einu sinni mætt í svanabúningi til að taka við tónlistarverðlaunum.

01 Y    hún var    einhverntímann (.) í svanabúningi

02        eða eitthvað á @Red Carpet@ [eða eitthvað

03 G                                                        [já::

04 Y    .hh og hún poppaði út eggjum

05        (0,4)

06 G    *oh my God he he he*

07 A    eu:[:hh

08 G       [*æðislegt*

09 Y    í alvöru sko

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka