Íbúðalánasjóður boðar lægri vexti á nýju ári

ÍLS vill þjóna betur félagslega íbúðakerfinu á Íslandi.
ÍLS vill þjóna betur félagslega íbúðakerfinu á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breytingar gætu orðið á vaxtakjörum hjá Íbúðalánasjóði (ÍLS) til uppbyggingar félagslegra íbúða um áramótin. Verðtryggð íbúðalán hjá sjóðnum bera 4,2% vexti en til samanburðar eru lægstu vextir hjá lífeyrissjóðunum nú 1,64% .

Þetta kemur fram í svari Hermanns Jónassonar, forstjóra ÍLS, við fyrirspurn Björns Arnars Magnússonar, forstjóra Brynju hússjóðs.

Fylgi skuldabréfaútboðum

Morgunblaðið fékk afrit af svarinu. Sjóðnum er ekki heimilt að fylgja stýrivöxtum SÍ heldur verður að fylgja vöxtum í skuldabréfaútboðum. Það síðasta fór fram 2012 en síðan hafa vextir lækkað mikið.

„Verði frumvarp það, sem nú er til meðferðar á Alþingi og kveður á um að Íbúðalánasjóður sameinist Mannvirkjastofnun í nýrri Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, að lögum þá opnast möguleiki til að bjóða upp á sanngjarnari vexti, jafnvel þegar á næsta ári. Sameinuð Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verður mun betur í stakk búin til að sinna þörfum óhagnaðardrifinna leigufélaga svo sem Brynju, Félagsbústaða og leigufélags Félagsstofnunar stúdenta og annarra þeirra sem hljóta stofnframlög úr almenna íbúðakerfinu en Íbúðalánasjóður getur að óbreyttu,“ skrifaði Hermann.

Taki mið af aksturskostnaði

Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag kallar Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, eftir breyttu viðhorfi lánastofnana til íbúðalána. Nánar tiltekið telur hann að bankar eigi að gera lántökum kleift að kaupa dýrari íbúðir ef lægri rekstrarkostnaður bifreiða skapar til þess svigrúm.

Þá telur Dagur að hagkvæmni húsnæðis utan höfuðborgarsvæðisins hafi verið ofmetin með hliðsjón af háum aksturskostnaði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert