Ófáir hafa fengið útrás fyrir áhyggjur sínar í Velvakanda í Morgunblaðinu gegnum tíðina, eins og þessi sem skrifaði einfaldlega undir bréf sitt „Áhyggjufullur“ snemma árs 1963:
„En það er annað, sem eitrað hefur þjóðlíf okkar á síðustu árum. Þar á ég við kvikmyndafarganið. Ég lýsi yfir fyllsta vantrausti á kvikmyndaeftirlitið. Allir vita að kvikmyndir hafa mikil siðferðileg áhrif og ekki er að efa að stór hluti þeirra siðferðisbrota, sem hér eru framin eiga rót sína að rekja til kvikmyndanna. Ætli kvikmyndaeftirlitið álíti að amerískar glæpamyndir eða sænskar klámmyndir séu siðbætandi fyrir unglingana? Í myndum þessum eru sýnd rán, morð og drykkjuskapur, en út yfir tekur þó þegar sýndar eru grófar samfarir, eða þar sem menn hjálpast við að nauðga ungum stúlkum. Ég tel að saurlifnaður sé ærið nógur og nægir þar að benda á hina almennu skemmtistaði hér á landi eða kringum þá. Það er hægt að skilja gróðafúsa kvikmyndahúseigendur að þeir vilji sýna myndir sem „trekkja“, en það er erfitt að skilja kvikmyndaeftirlitið, því varla er hægt að ætla því hagnað af þessu?“
Gluggað er í bréf og símtöl til Velvakanda í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina en betri heimild um tíðarandann og sálarlíf þjóðarinnar er vandfundið.