Jarðskjálftahrinan sem hófst rétt eftir hádegi á Reykjanesskaganum er enn í gangi, að sögn Einars Bessa Gestssonar, náttúruvásérfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Skjálftarnir sem nú skekja skagann eru þó ekki jafn stórir og fyrr í dag en þeir gætu samt sem áður stækkað aftur.
„Hrinan er enn í gangi og enn margir skjálftar á Reykjanesskaganum. Við fengum stærstu og mestu ákefðina í hrinunni á milli tólf og þrjú í dag og það er aðeins búið að hægja á hrinunni síðustu klukkutímana. Það þýðir samt ekki endilega að hún sé að hægja á sér, hún gæti farið vaxandi aftur. Það er ágætlega þekkt hegðun í svona hrinum að það komi smá rólegri tímar inn á milli og svo byrja skjálftarnir aftur eða ekki,“ segir Einar í samtali við mbl.is.
Spurður hvers vegna hrinan myndist segir Einar:
„Hún er þarna úti á Reykjaneshrygg og þar eru flekaskil. Þetta gætu verið jarðskorpuhreyfingar en það eru líka neðansjávareldfjöll á hryggnum sem gætu valdið hrinunni. Það er ekki hægt að segja til um það strax.“
Aðspurður segir Einar ólíklegt að hrinan geti verið hættuleg þeim sem búa í grennd við skjálftana.
„Við eigum ekki von á því. Stærstu skjálftarnir sem ég hef séð í gagnasafninu hjá okkur fara upp í fimm. Þeir ættu að valda titringi en ekki hættu, myndi ég halda.“
Á milli fimmtán og tuttugu tilkynningar hafa borist Veðurstofunni vegna jarðskjálftahrinunnar. „Við gerum þó ráð fyrir því að það hafi miklu fleiri orðið varir við þetta,“ segir Einar.
Þegar blaðamaður ræddi við skjálftafræðing hjá Veðurstofunni fyrr í dag sagði hann að þá benti ekkert til þess að flóðbylgjur myndu myndast vegna skjálftanna. Einar segir það enn eiga við.
„Eins og er myndi ég ekki segja að það væri líklegt. Það er aðeins öðruvísi heldur en á öðrum svæðum úti í heimi þar sem eru flóðbylgjur eru algengar þá myndast þær á öðruvísi flekamótum heldur en við erum með hér.“
Flóðbylgjur eru því ekki jafn algengar hérlendis og á öðrum skjálftasvæðum, til dæmis í Indónesíu.