Engar skýringar á 1.600 milljóna millifærslum

Höfuðstöðvar Kaupþings. Fjárfestingarfélagið Gnúpur átti um tíma stóran hlut í …
Höfuðstöðvar Kaupþings. Fjárfestingarfélagið Gnúpur átti um tíma stóran hlut í bönkunum Kaupþingi og Glitni og einnig yfir 20% hlut í FL Group mbl.is/Golli

Engar útskýringar hafa komið fram á millfærslum upp á samtals 1.600 milljónir króna frá fjárfestingafélaginu Gnúpi, í tengslum við þátttöku þáverandi forstjóra þess, Þórðar Más Jóhannessonar í félaginu.

Aðalmeðferð fór nýlega fram í skaðabótamáli í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem farið var fram á samtals 2,3 milljarða króna skaðabætur vegna háttsemi stjórnenda Gnúps árið 2006. Þar kom meðal annars fram í skýrslutökum yfir Þórði Má og Helga Arnarsyni, endurskoðanda Gnúps, að þeir könnuðust ekkert við viðskiptin, en millifærslurnar áttu sér stað degi eftir að Þórður greiddi inn tveggja milljarða hlutafé sitt í félagið. Tölvupóstsamskipti sýna hins vegar að Helgi þekkti vel til viðskiptanna.

Gnúpur var fjárfestingarfélag sem var stofnað árið 2006. Eignarhaldið var á höndum þriggja hópa. Fyrst var það Magnús Kristinsson sem átti ásamt fjölskyldu sinni 46,5% í félaginu. Þá áttu félög í eigu Kristins Björnssonar og þriggja systra hans 46,4% og Þórður Már Jóhannesson átti 7,1%. Stofnun félagsins var þó öllu flóknari en að þessir aðilar hafi lagt til fjármagn í hlutfalli við eignarhlutinn og um það snýst m.a. dómsmálið.

Stefnandi í málinu er félagið Lyfjablóm, en það var móðurfélag utan um eignir Kristins Björnssonar og fjölskyldu og hét áður Björn Hallgrímsson ehf., í höfuðið á föður systkinanna. Var félagið í jafnri eign Kristins og systranna þriggja og öll sátu þau í stjórn félagsins. Síðar urðu breytingar á eignarhaldi félagsins.

Stofnað fyrir 13 árum

Saga Gnúps byrjar á því að félagið AB 36 ehf. var stofnað af Þórði Má fyrri hluta ársins 2006. Strax eftir stofnun var nafni félagsins breytt í Þúfubjarg. Í október 2006 kaupa félögin MK-44 og Suðurey annars vegar og SK II og SKE II hins vegar þetta eignalausa félag á 1,6 milljarða af Þórði og eiga því 50% hlut hvort um sig.

Fyrrnefndu félögin voru í eigu Magnúsar og fjölskyldu, en hin síðarnefndu í eigu Kristins og fjölskyldu. Greiddu félögin 800 milljónir hvort, en fjölskyldufyrirtæki Kristins fengu þessa upphæð að láni frá Glitni.

Lyfjablóm beinir kröfum sínum meðal annars gegn Þórði Má Jóhannessyni …
Lyfjablóm beinir kröfum sínum meðal annars gegn Þórði Má Jóhannessyni sem var forstjóri Gnúps. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Lögðu fjölskyldurnar svo eignir sínar í Kaupþingi og FL Group inn í hið nýja félag, en það voru eignir upp á tugi milljarða.

Samhliða þessum viðskiptum fær félagið Brekka II, sem var í eigu Þórðar, að kaupa sig inn í nýja félagið (sem átti eftir að verða að Gnúpi) fyrir tvo milljarða. Barst sú upphæð í þremur greiðslum inn á reikning félagsins og var Þórður ráðinn forstjóri hins nýja félags.

Daginn eftir innborgun hlutafjár Þórðar Más greiðir hins vegar Gnúpur samtals 1.600 milljónir til baka til þessara fjögurra félaga sem svo greiða Glitni lánsupphæðina, 800 milljónir frá félögum hvorrar fjölskyldu, sem þau notuðu til að kaupa Þúfubjarg ehf af Þórði Má.

Hagnaður og hrun

Eitt ár líður og eignir Gnúps hækka gríðarlega og félagið skilar 1,9 milljarða hagnaði árið 2006. Hagnaður fyrstu sex mánuði ársins 2007 var samkvæmt árshlutareikningi 12,7 milljarðar og heildareignir 90,4 milljarðar og 49% eiginfjárhlutfall.

Þegar líður á árið 2007 fara hins vegar óveðursský að hrannast upp og er óskað eftir að eigendur leggi til aukið hlutafé sem innspýtingu vegna lausafjárskorts. Eigendurnir samþykktu það, en sjö vikum síðar, í janúar 2008, var félagið komið í þrot og gert var samkomulag við lánardrottna félagsins. Tók bankinn yfir stjórnun Gnúps, en í samkomulaginu er þó ítrekað tekið fram að ekki verði farið fram á gjaldþrot þess. Þá gengust þeir Magnús, Kristinn og Þórður í persónulega ábyrgð fyrir að 1,6 milljarða eignir væru í félaginu, þrátt fyrir að um skuldir hlutafélags með takmarkaða ábyrgð væri að ræða. Á móti lýsti Glitnir yfir að bankinn myndi fyrirgera rétti til skaðabóta á hendur stjórnendum Gnúps. Hefur mbl.is áður fjallað ítarlega um þau mál og sögu Gnúps.

Bankinn hafði einnig tekið yfir félagið Björn Hallgrímsson og fluttist það yfir í slitabú Glitnis eftir fall bankans. Systursonur Kristins fékk að kaupa félagið og stendur það nú í málaferlunum. Er sjónum sérstaklega beint að þessum 1.600 milljóna millifærslum, sem í tilfelli fjölskyldu Kristins nema 800 milljónum. Er farið fram á Þórður Már og Sólveig Pétursdóttir, fyrrverandi ráðherra sem situr í óskiptu búi eftir Kristin, greiði sameiginlega 800 milljónir vegna þeirra.

Viðskiptaflétta

Í stefnu málsins er viðskiptafléttan sögð hafa verið sett upp til að láta móðurfélagið (Björn Hallgrímsson ehf.) fjármagna hlutafjárframlag Þórðar Más með þeim hætti að eigið fé Þúfubjargs (síðar Gnúps) hafi í raun verið minna en gefið var upp og þetta hafi þynnt hlut annarra eigenda sem nam endurgreiðslunni. Allt hafi þetta verið gert án vitnesku annarra eigenda móðurfélagsins en Kristins. Þá er vísað til þess að 800 milljóna lánveitingin hafi hvorki verið tekin upp í stjórn né bókuð í bókhaldi félagsins.

Í annarri dómkröfu stefnunnar er svo farið fram á 1,5 milljarða bætur vegna skorts á upplýsingum í tengslum við hlutafjáraukninguna í lok árs 2007. Segir að Þórður Már, sem þáverandi forstjóri, og Kristinn, sem þáverandi stjórnarformaður félagsins, hafi borið ábyrgð á því að ekki hafi verið veittar réttar upplýsingar um fjárhagsstöðu og áhættu Gnúps, meðal annars þar sem ekki var gerð grein fyrir stöðu tugmilljarða afleiðusamninga. Þessar upplýsingar hafi hvorki verið færðar með réttum hætti í ársreikningi ársins 2006 né árshlutareikningi fyrri hluta ársins 2007. Segir í stefnunni að allt fjármagnið sem kom inn í hlutafjáraukningunni hafi svo farið í allt annað en að bæta lausafjárstöðuna, þ.e. að það hafi farið í að styrkja fjárhag félagsins FL Group.

Gátu ekki útskýrt millifærslur

Við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi í lok október sagðist Þórður Már ekki geta útskýrt millifærslurnar og sömu sögu er að segja um Helga Arnarson, endurskoðanda KPMG sem var endurskoðandi Gnúps, bæði fyrir og eftir að Glitnir tók félagið yfir. Hafði hann þó skrifað upp á að Þórður Már hefði greitt tveggja milljarða hlutafjárloforð sitt án þess að taka fram að 1.600 milljónir hafi farið beint aftur af reikningi Gnúps

Í tölvupóstum sem mbl.is hefur undir höndum og eru á milli Helga og bókara Magnúsar Kristinssonar, sem var hinn þátttakandinn í fléttunni, er hins vegar ljóst að Helgi þekkti til þeirrar ráðstöfunar sem áformuð var. „MK og Smáey keyptu 50% hlut í Gnúp af Brekku fyrir 800 millj. kr. og fengu skammtímalán í Glitni. Gnúpur gerði svo lánin upp þegar búið var að ganga frá hlutafjáraukningunni,“ segir í tölvupósti frá Helga þegar hann útskýrir skammtímalán í bókum MK-44.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert