Námið eins og hannað fyrir dúxinn

Þegar Anna Lilja er spurð hvernig námsmenn geti náð svo …
Þegar Anna Lilja er spurð hvernig námsmenn geti náð svo hárri einkunn þarf hún ekki að hugsa sig tvisvar um. „Bara með því að læra.“ Ljósmynd/Aðsend

Það kom Önnu Lilju Atladóttur, dúx Fjölbrautaskólans í Garðabæ (FG), ekki í opna skjöldu að hún skyldi hljóta hæstu einkunn útskrifaðra. Hún segir að leiðin að góðum einkunnum sé einföld, að læra nógu mikið. 

„Ég var  búin að vera að fylgjast með einkunnunum mínum svo þetta kom mér í raun ekki á óvart en það er alltaf jafn gaman að fá svona viðurkenningu,“ segir Anna Lilja í samtali við mbl.is en meðaleinkunn hennar hljóðar upp á 9,3. 

„Á einum tímapunkti þá áttaði ég mig á því að ég gæti náð þessu þannig að eftir fyrstu annirnar þá fór þetta að verða smá áskorun í raun og veru, að halda einkunninni við og stefna á þetta.“

Þegar Anna Lilja er spurð hvernig námsmenn geti náð svo hárri einkunn þarf hún ekki að hugsa sig tvisvar um. „Bara með því að læra.“

Hlaut fjórar viðurkenningar

Anna Lilja útskrifaðist af alþjóðabraut. Hún hlaut fjórar viðurkenningar við útskriftina fyrir afburða frammistöðu í einstökum greinum.

„Ég fékk viðurkenningu fyrir árangur í þýsku og ensku og svo fyrir mætingu í íþróttir og mætingu almennt.“

Hér er Anna með skólameistara FG, Kristni Þorsteinssyni.
Hér er Anna með skólameistara FG, Kristni Þorsteinssyni. Ljósmynd/Gunnar Hólmsteinn

Anna Lilja er gríðarlega ánægð með alþjóðabrautina í FG. „Námið var frábært. Það var í raun eins og hannað fyrir mig. Brautin var ástæða þess að ég fór í FG.“

Stefnir út í heim

Nýútskrifaðir fá gjarnan spurninguna „og hvað svo?“

„Ég ætla að gefa mér smá pásu alla vega og reyna að fóta mig aðeins í lífinu, átta mig á því hvað mig langar að gera og finna út úr því í rauninni. Mig langar að ferðast og það verður stefnan núna,“ segir Anna Lilja við þessari klisjukenndu spurningu. 

Spurð hvort skólinn hafi verið eina áhugamálið segir Anna svo ekki vera. Hún spilar á trompet og var í skólahljómsveit stóran hluta námsferilsins. Auk þess hefur hún gaman af líkamsrækt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka